9.7.2019 9:50

Furðuskrif í Morgunblaðinu

Ef til vill á frekar að líta á þessa grein sem ábyrgðarlausan gjörning en framlag til vitrænnar umræðu um samstarf við aðrar þjóðir og íslensk stjórnmál?

Að óreyndu hefði mátt ætla að Facebook dygði fyrir hvers kyns furðuskrif og dagblöð drægju úr birtingu slíks efnis. Hér skulu nefnd tvö ný dæmi úr Morgunblaðinu um að svo er ekki.

Guðmundur Jónas Kristjánsson er bókhaldari og situr í stjórn Frelsisflokksins. Grein hans í Morgunblaðinu föstudaginn 5. júlí sýnir að höfundur er eindreginn andstæðingur þriðja orkupakkans og fullyrðir blákalt að allir orkupakkar „skylda Ísland undir orkumálastjórn ESB og orkumarkað ESB með öllu því yfirþjóðlega valdi og reglugerðafargani sem því fylgir“. Fyrir þessu færir hann engin rök enda er þetta hugarburður hans.

Í greininni ræðst hann einnig gegn EES-samningnum í anda samtakanna Frjálst land sem eru systursamtök norsku samtakanna Nei til EU hér á landi. Guðmundur Jónas segir að árið 2015 hafi Viðskiptaráð birt tölur um kostnað atvinnulífsins af eftirliti vegna EES og sé beinn kostnaður metinn um 20 milljarðar. Gallinn við þetta er sá að Viðskiptaráð hefur aldrei rannsakað þetta sérstaklega vegna EES. Rétt er að 20 milljarðarnir koma úr kynningu um kostnað við regluverk almennt, óháð því hvort það er vegna EES eða annars. Síðan birtir Guðmundur Jónas tilvitnun innan gæsalappa á þann veg að lesandinn hlýtur að draga þá ályktun að hún sé úr skýrslu Viðskiptaráðs. Við nánari athugun kemur hins vegar í ljós að hún er af vefsíðu Frjáls lands og í grein eftir Sigurbjörn Svavarsson, formann Frjáls lands, sem oft skrifar greinar gegn EES í Morgunblaðið.

Að samherjar, menn saman í félagi eða flokki, vitni hver í annan málstaðnum til stuðnings er eðlilegt. Hitt er skammarlegt að vitna í texta skoðanabróður síns á þann veg að ætla megi að hann sé frá Viðskiptaráði eins og Guðmundur Jónas gerir. Þetta er ómerkilegt bragð.

2000px-Face-surprise

Hin greinin sem hér skal nefnd til marks um furðugreinar í Morgunblaðinu birtist í dag (9. júlí) og er eftir Guðmund Karl Þorleifsson, formann Íslensku þjóðfylkingarinnar. Hún ber fyrirsögnina: Er líberalistaslagsíða viðreisnarráðherra Sjálfstæðisflokksins að kljúfa flokkinn? Bendir orðavalið til að höfundur upplýsi stórhneyksli í skrifum sínum.

Í stuttu máli lítur flokksformaðurinn á sendiráð ESB á Íslandi sem skattskylt fyrirtæki sem svíki undan skatti. „Hvernig má það vera, að RSK [ríkisskattstjóri] hjólar í allt og alla sem í rekstri eru en lætur útibú ríkjasambands vera átölulaust?“ spyr höfundur með þjósti. Hann segir þjóðfylkinguna hafa tengilið í Brussel sem segi að „hingað hafi komið 24 milljarðar frá 2009“ Veltir hann fyrir sér hvort sendiráðið stundi „svarta atvinnustarfsemi eða mútur“ og skorar á rannsóknarblaðamenn að láta nú hendur standa fram úr ermum. Greininni lýkur á þessum orðum: „Er tími til að Íslendingar vakni og segi nei við líberalismanum og sjálftökufólki á þingi? Ég bara spyr.“

Ef til vill á frekar að líta á þessa grein sem ábyrgðarlausan gjörning en framlag til vitrænnar umræðu um samstarf við aðrar þjóðir og íslensk stjórnmál? Fyrirsögnin er vonandi samin af greinarhöfundi en ekki á ritstjórn Morgunblaðsins. Þó er engu líkara en höfundur fyrirsagnarinnar hafi ekki lesið greinina.