Furðukenningum hafnað
Framganga Svandísar var á skjön við allt annað í þættinum og sýndi að hún telur VG best borgið með því að flytja sig út á jaðar sérvisku og óraunsærra krafna á hendur öðrum.
Hleypt var af startbyssu kosninganna í nóvember í umræðuþætti ríkissjónvarpsins að kvöldi mánudagsins 14. október. Þar sátu forystumenn allra flokka á alþingi fyrir svörum í tæpa tvo klukkutíma hjá fréttamönnunum Sigríði B. Hagalín og Bergsteini Sigurðssyni.
Ríkissjónvarpið að kvöldi mánudagsins 14. október 2024 (mynd ruv.is)
Í þættinum tókst Bjarna Benediktssyni að leiðrétta misskilning sem breiddist út fyrr um daginn að fyrir lægi að skipta um forsætisráðherra í starfsstjórn bæðist hann lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Hann varð að grípa orðið af Sigríði B. Hagalín til að koma því til skila að yrði skipt um forsætisráðherra yrði ekki um starfsstjórn að ræða heldur nýja ríkisstjórn sem þyrfti umboð frá alþingi. Og hann sagði:
„Ef menn ætla að fara í einhverjar æfingar, að búa til nýjan meirihluta og einhverja minnihlutastjórn og svona – ég segi bara fínt, takið bara allan tímann sem þið viljið í það, og gangi ykkur vel með að keyra þingið áfram í þeim krafti.
Og ég veit ekki hvaða mál menn láta sér detta í hug, að verði keyrð í gegnum þingið í krafti einhvers meirihluta í ósætti á næstu vikum. Þetta eru svolítið útópískar hugmyndir.“
Þegar Bjarni lýsti undrun yfir að ríkisútvarpið væri með furðukenningar varðandi starfsstjórn afsakaði Sigríður B. Hagalín spurningu sína með því að hún hefði haft þetta eftir Svandísi Svavarsdóttur, formanni VG.
Í þættinum voru þessi orðaskipti milli Bergsteins og Svandísar:
Bergsteinn: En ertu ekki með öðrum orðum að hafna því að sitja í starfsstjórn sem Bjarni Benediktsson er í líka?“
Svandís: Nei, ég er ekki að því. Ég er bara að segja það, að þingflokkur VG hefur tekið um það ákvörðun, að taka ekki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem Bjarni Benediktsson leiðir.
Bergsteinn: Þótt það verði í starfsstjórn?
Svandís: Já.
Bjarni mun biðjast lausnar en sitja áfram sem forsætisráðherra starfsstjórnar fram yfir kosningar. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks taka þá að sér ráðherraembættin sem VG hefur sinnt, standi Svandís við þessa yfirlýsingu sína. Henni tekst ekki að gera landið stjórnlaust með ergelsi sínu.
Framganga Svandísar var á skjön við allt annað í þættinum og sýndi að hún telur VG best borgið með því að flytja sig út á jaðar sérvisku og óraunsærra krafna á hendur öðrum.
Það er undarlegt ef forseti Íslands ætlar að elta Svandísi út á jaðarinn í stað þess að taka af skarið í samræmi við stjórnarskrána og samþykkja tillögu forsætisráðherra um þingrof og kosningar.
Yfirlýsingin sem forseti gaf að morgni mánudagsins 14. október, eftir að Bjarni lagði tillögu sína um þingrof fyrir forseta til undirskriftar, var á skjön við góða stjórnarhætti.
Það er embætti forseta fyrir bestu að halda því utan og ofan við ruglumræðurnar um starfsstjórn. Forseti á að halda að sér höndum við stjórnarmyndun þar til að loknum kosningum.