Furðugrein flokksformanns um 3. orkupakkann
Í dag bætist enn ein furðugreininn í orkupakkasafnið. Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins, ritar hana í Morgunblaðið.
Margt sérkennilegt hefur verið sagt um 3. orkupakkann. Í dag (28. nóvember) bætist enn ein furðugrein í safnið. Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins, ritar hana í Morgunblaðið.
Inga Sæland í ræðustól alþingis.
Í fyrsta lagi lætur Inga eins og úrslitum hafi ráðið um mat á hvort EES-samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána að sérfræðingar töldu hann tryggja okkur „skilyrðislaus yfirráð eigin auðlinda“. Vissulega gerir samningurinn það en önnur atriði lágu stjórnarskrármatinu að baki.
Í öðru lagi leggur Inga áherslu á tveggja stoða lausnina í samningnum. Hún segir hann ekki hafa byggst „á þriggja stoða lausninni sem tilheyrir einungis þeim þjóðum sem eru fullgildir aðilar að ESB“. Inga skýrir ekki hvað í þessum orðum hennar felst. Innan EES er tveggja stoða kerfið reist á sjálfstæðu eftirlits- og dómskerfi EFTA-ríkja samstarfsins annars vegar og sambærulegu kerfi innan ESB með framkvæmdastjórn þess og dómstóli.
Í þriðja lagi segir Inga að nú eigi „hreinlega [að] þvinga upp á okkur þriggja stoða lausninni eins og við værum aðildarríki Evrópusambandsins “. Til að röksemdafærsla Ingu sé skiljanleg verður hún að skýra hver þessi „þriggja stoða lausn“ er. Henni kann þó að reynast ómögulegt að finna hugarsmíð sinni stoð.
Í fjórða lagi lætur Inga eins og með 3. orkupakkanum eigi „að afhenda orkuauðlindir okkar til Brussel“. Þetta er alls ekki á dagskrá og hefur aldrei verið.
Í fimmta lagi segir hún ranglega: „Strax við samþykki orkupakkans erum við búin að afsala okkur yfirráðum á raforkunni.“ Þetta reisir hún á þeim hugarburði að Brusselmenn ráðist óboðnir inn í íslenska raforkunetið með sæstreng. Haldi hún að til sé evrópskt raforkunet með aðalrofa í Brussel er það sjötta meginvilla hennar.
Grein sinni lýkur Inga á þessum orðum:
„Eftir áratuga baráttu fyrir fullveldi íslensku þjóðarinnar er ég ekki tilbúin að afsala því nú. Þriðji orkupakkinn kemur okkur ekki við og því til staðfestingar er nóg að líta á landakortið.“
Inga Sædal stendur vörð um fullveldið hvort sem hún er með eða á móti 3. orkupakkanum. Lokaorðin um landakortið standa vissulega fyrir sínu. Sæstrengs-skýrslur sem hafa verið lagðar fyrir alþingi sýna að 3. orkupakkinn snertir sæstrenginn ekki neitt nema Inga og félagar hennar á þingi taki sérstaka, vel ígrundaða og upplýsta ákvörðun um hann. Flokksformaðurinn hefði betur tileinkað sér þau vinnubrögð áður en hún skrifaði þessa furðugrein sína.