23.3.2019 11:26

Fullveldisrétturinn yfir orkulindum áréttaður

Í þessum skýra texta er tekinn af allur vafi um fullveldisrétt Íslendinga yfir orkuauðlindum sínum. Alið hefur verið á efasemdum um þennan rétt í umræðum hér á landi í eitt ár vegna undirróðurs frá Noregi.

Eins og sagt var frá hér í gærmorgun (22. mars) var þess að vænta að kynnt yrði hvernig ríkisstjórnin ætlaði að standa að innleiðingu 3ja orkupakkans svonefnda hér á landi en málið hefur verið á dagskrá stjórnvalda frá árinu 2010. Eftir fund ríkisstjórnarinnar sem haldinn var um svipað leyti og texti um þetta efni birtist hér á síðunni var sagt frá ákvörðun hennar um leggja málið fyrir alþingi.

Urridafoss2008gks_857648993Myndin er af Urriðafossi, birtist á sunnlenska.is

Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins birtist fréttatilkynning um að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Miguel Arias Canete framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefðu rætt saman um 3ja orkupakka ESB miðvikudaginn 20. mars 2019.

Í samtali þeirra var staðfest að við innleiðingu þriðja orkupakkans hér væru aðstæður verulega frábrugðnar því sem væri í löndum þar sem orkunet tengjast yfir landamæri. Raforkukerfi Íslands væri að óbreyttu „einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar. Þar af leiðandi munu ákvæði um ACER (Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) og reglugerðin um raforkuviðskipti yfir landamæri ekki hafa nein merkjanleg áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum,“ segir í tilkynningunni. Þar segir einnig:

„Verði grunnvirki yfir landamæri sett upp í framtíðinni hefur eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri, en ekki ACER.[...]

Gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Ákvæði þriðja orkupakkans eins og þau gilda gagnvart Íslandi breyta ekki núverandi lagalegri stöðu að þessu leyti.“

Í þessum skýra texta er tekinn af allur vafi um fullveldisrétt Íslendinga yfir orkuauðlindum sínum. Alið hefur verið á efasemdum um þennan rétt í umræðum hér á landi í eitt ár vegna undirróðurs frá Noregi. Innan EES er litið á orku eins og hverja aðra vöru sem lýtur samkeppnislögmálum. Alþingi tók fyrst afstöðu til þess með raforkulögum nr. 65/2003. Þá var fyrsti orkupakkinn lögleiddur og með vísan til hans hófust athuganir um hagkvæmni þess að tengja íslenska raforkukerfið því evrópska með sæstreng. Lauk þeirri athugun á vegum ríkisstjórnarinnar með skýrslu sem kom út 2016. Það er ekki fyrr en nú við afgreiðslu 3ja orkupakkans sem athygli beinist sérstaklega að fullveldisrétti Íslendinga í þessu efni. Má segja að tímabært hafi verið að árétta hann á jafn skýran hátt og að ofan er lýst.

Þeir sem helst hafa efast um þennan rétt íslenskra stjórnvalda hljóta að fagna niðurstöðunni sem nú hefur verið kynnt. Hún sýnir að ríkisstjórnin tók mið af varnaðarorðum þeirra og eyddi öllum vafa um þetta efni.