18.3.2019 10:13

Frysting eyðir ekki smithættu

Ákvörðun borgarstjóra og að forsætisnefnd alþingis láti sér þetta lynda ýtir enn undir hnignandi virðingu borgarstjórnar og þingsins.

Í Morgunblaðinu í dag (18. mars) ræðir Sigurður Bogi Sævarsson við Katrínu Andrésdóttur sem var í áraraðir héraðsdýralæknir á Suðurlandi um smitvarnir og innflutning á matvælum. Hún segir:

„Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er ein helsta heilbrigðisógnin sem steðjar að mönnum og dýrum í dag. Innflutningur á ófrystu kjöti er samt ekki endilega sú mikla vá sem haldið er fram, flutt er inn töluvert magn af frosnu kjöti sem gæti innihaldið sömu sóttkveikjur og ófryst kjöt. Og flestar sóttkveikjur, að undanskildum Camphylobacter, geymast ágætlega í frosti. Mikilvægasta vörnin er því rétt meðhöndlun matvæla, að gegnhita kjöt og þvo ávexti og grænmeti. [...]

Mér líst vel á þær áætlanir sem fyrir liggja [um sjúkdómavarnir]; þær munu bæta öryggi neytenda og dýra. Fylgja verður betur eftir því að hægt sé að rekja feril matvæla, frá bóndanum í búðina. Merkja öll íslensk matvæli skýrt og greinilega þannig að neytendur geti auðveldlega valið það sem þeim hugnast best. [...]

Í huga okkar dýralækna þá hefur frystiskyldan verið varnaglinn ef upp kæmi dýrasjúkdómur á upprunasvæðinu, þá gæfist svigrúm til að snúa við mögulega smitmenguðu kjöti. Sem betur fer hefur þó aldrei reynt á þetta. Nú eru komin öflug viðbragðskerfi í Evrópusambandinu sem gera okkur kleift að stöðva dreifingu smitaðra afurða fljótt og vel. Hættan á smiti úr innfluttu kjöti er því ekki jafn mikil og áður var.“

Í samtalinu við Katrínu kemur fram að með fleiri ferðamönnum aukist hættan á því að smit og ónæmar bakteríur berist til landsins. Nauðsynlegt sé að huga að sjúkdómavörnum í því tilliti og gæta fyllsta hreinlætis.

DSC00681-696x464DSC00676Hér fylgja tvær myndir eftir Rúnar Gunnarsson sem birtust á vefsíðunni Viljanum sunnudaginn 17. mars. Þær vekja spurningar um hvort gætt hafi verið allra nauðsynlegra hreinlætis- og öryggiskrafna með aðkomu réttra stjórnvalda þegar borgarstjóri leyfði að Austurvelli yrði breytt í tjaldstæði og styttunni af Jóni Sigurðssyni breytt í snaga fyrir mótmælaspjöld.

Ákvörðun borgarstjóra og að forsætisnefnd alþingis láti sér þetta lynda ýtir enn undir hnignandi virðingu borgarstjórnar og þingsins. Áður fyrr þótti máli skipta að almenningur kæmi saman á Austurvelli til að láta í ljós vilja sinn til fagnaðar eða andmæla. Nú hefur allt yfirbragð þarna breyst á þann veg að engin leið er að átta sig á hvort eitthvað skipti máli sem tengist aðgerðum á Austurvelli eða ekki, risið hefur lækkað jafn og þétt. Myndirnar segja meira en mörg orð.