11.4.2017 17:07

Frjáls fjölmiðlun, „heiðursfólkið“ og Sósíalistaflokkurinn

Engu er líkara en menn átti sig ekki á að Gunnar Smári Egilsson kýs að draga athygli að stofnun nýs flokks, Sósíalistaflokksins, til að hætt sé að tala um viðskilnað hans við Fréttatímann og starfsfólkið þar.

 

Engu er líkara en menn átti sig ekki á að Gunnar Smári Egilsson kýs að draga athygli að stofnun nýs flokks, Sósíalistaflokksins, til að hætt sé að tala um viðskilnað hans við Fréttatímann og starfsfólkið þar.

Eftir að margir tugir milljarða Baugsveldisins höfðu farið í súginn vegna fjölmiðlaumsvifa Gunnars Smára í nafni þess stofnaði Gunnar Smári til illdeilna við Jón Ásgeir Jóhannesson, höfuðpaur Baugsmanna, á opinberum vettvangi til þess eins að draga skil í hugum almennings á milli sín og Jóns Ásgeirs.

Gunnar Smári nýtur sérstaks velvilja hóps álitsgjafa sem ávallt lætur eins og taka beri boðskap hans á þann veg að hann eigi sérstakt erindi við þjóðina. Þetta dálæti er fyrst og síðast til þess eins fallið að gengisfella álit manna á þeim sem eru til þess búnir að ganga erinda Gunnars Smára eða leggja málstað hans lið.

Hér á síðunni hefur verið bent á blekkingarleikinn í kringum stórhátíð sem Gunnar Smári boðaði til í Háskólabíói laugardaginn 11. mars. „ Við stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar verður efnt til fagnaðar þar sem fjölmargir listamenn halda uppi stemningu,“ sagði í kynningu og síðan var birtur listi yfir marga þjóðkunna listamenn. Aldrei var einu sinni birt mynd af samkomunni en sagt að safnast hefðu 10,5 m. kr. og 800 manns skráð sig sem stofnfélaga í Frjálsri fjölmiðlun.

IMG_2715

Föstudaginn 10. mars, daginn fyrir „stofnfundinn“ birtist frétt í Fréttatímanum undir fyrirsögninni: Samviska Frjálsrar fjölmiðlunar. Þarna var nefndur til sögunnar hópur fólks sem tekið hefði að sér að sitja í fulltrúaráði Frjálsrar fjölmiðlunar, samtaka til stuðnings óháðri og frjálsri blaðamennsku. Rætt var við Gunnar Smára sem sagði:

„Ráðið samanstendur af miklu heiðursfólki sem hefur látið margt gott af sér leiða, bæði með störfum sínum og ekki síður með borgaralegri þátttöku sinni. Á laugardaginn mun ráðið og stjórn Frjálsrar fjölmiðlunar taka við boltanum og byggja upp þessi samtök. Við á Fréttatímanum munum snúa okkur að því að gefa út betra blað.“

Í ljós hefur komið að ekkert var að marka þessa yfirlýsingu Gunnars Smára. Hann yfirgaf sökkvandi skip með stórundarlegum yfirlýsingum og talar nú aðeins um stofnun nýs stjórnmálaflokks, Sósíalistaflokks.

Hér birtist nafnalistinn úr Fréttartímanum frá 11. mars:

Andri Snær Magnason rithöfundur, Anna Wojtynska mannfræðingur, Arnbjörg María Danielsen leikstjóri, Benedikt Erlingsson leikstjóri, Benjamin Julian aktivisti, Dominique Plédel Jónsson matarpólitíkus, Elísabet Rónaldsdóttir klippari, Guðrún Hallgrímsdóttir jarðfræðingur, Héðinn Unnsteinsson stjórnsýslufræðingur, Hrannar Jónsson formaður Geðhjálpar, Hulda Hákon myndlistarkona, Joanna Marcinkowska verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi, Katrín Oddsdóttir lögmaður, Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri, Kristín Eiríksdóttir skáld, Kristinn Sigmundsson söngvari, Lára Jónasdóttir verkefnastjóri hjá Læknum án landamæra, Lea María Lemarquis aktivisti, Margrét Örnólfsdóttir rithöfundur, Margrét Valdimarsdóttir a rotafræðingur, Mikael Torfason rithöfundur, Mörður Árnason íslenskufræðingur, Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði, Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Ragnar Kjartansson myndlistarmaður, Róbert H. Haraldsson prófessor í heimspeki, Róbert Marshall blaðamaður, Sigríður Eyþórsdóttir iðjuþjálfi, Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður, Sigurjón Magnús Egilsson blaðamaður, Sjöfn Ingólfsdóttir fyrrum formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Stefán Jón Hafstein blaðamaður, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og ritstjóri, Sverrir Jakobsson prófessor í sagnfræði, Tolli myndlistarmaður, Torfi  H. Tulinius prófessor í miðaldafræðum, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri.

Hvergi hefur sést vísað til þess opinberlega að þetta fólk eða fulltrúar þess hafi látið að sér kveða við lausn erfiðleikanna sem steðja að Fréttatímanum og starfsfólki hans. „Heiðursfólkið“ hans Gunnars Smára hefur ef til vill ákveðið að snúa sér að stofnun Sósíalistaflokksins undir forystu hans?