3.5.2022 10:00

Friðrof vegna leka úr hæstarétti

Ábyrgð dómara er mikil. Þeim ber að virða stjórnarskrá og lög og leysa úr ágreiningi á þann veg að stuðli að friði og jafnvægi í samfélaginu.

Allt fer á annan endann komist hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu í áliti sem sagt er að verði birt 30. júní 2022, að dómur hans frá 1973 (Roe v. Wade málið) réttinn til þungunarrofs (fóstureyðingar) standist ekki stjórnarskrána heldur verði stjórnmálamenn í hverju ríki landsins fyrir sig að setja lög um efnið.

Á vefsíðu Politico í Washington birtist að kvöld mánudags 2. maí 98 bls. skjal frá 10. febrúar 2022 sem sagt er samið af Samuel Alito, íhaldssömum hæstaréttardómara. Í skjalinu er að finna tillögu að þeirri niðurstöðu að hæstiréttur breyti um túlkun á lögum um þungunarrof.

Roe v. Wade markaði árið 1973 þáttaskil í bandarískri réttarsögu. Til þessa hefur hæstiréttur sagt að í dóminum felist fordæmi sem tryggi konum grundvallarrétt til lögmæts þungunarrofs. Hæstaréttaómararnir hafa á 49 árum takmarkað þennan rétt en aldrei ýtt honum til hliðar.

Www.politico.comMótmælendur þungunarrofs fyrir framan byggingu hæstaréttar Bandaríkjanna.

Politico segir að í óformlegri könnun á afstöðu dómaranna níu hafi fjórir stutt sjónarmið Alitos, Clarence Thomas, Neil M. Gorsuch, Brett M. Kavanaugh og Amy Coney Barrett. Þá segir að dómararnir Stephen G. Breyer, Sonia Sotomayor og Elena Kagan séu að semja annað álit. Afstaða dómsforsetans, John G. Roberts Jr. sé ekki ljós.

Skjal Alitos heitir á ensku Opinion of the Court – Álit réttarins. Þar er sagt að hafna beri niðurstöðunni í Roe v. Wade-málinu. Og einnig: „Það er tímabært að fara að stjórnarskránni og fela kjörnum fulltrúum fólksins að taka ákvarðanir um þungunarrof.“

Að skjöl af þessu tagi leki úr hæstarétti Bandaríkjanna er næstum einsdæmi. Til að tryggja sér starfsfrið og í þeim anda að fyllsta hlutleysis sé gætt við úrlausn mála án þrýstings af nokkru tagi er lögð rík áhersla á trúnaðar- og þagnarskyldu um allt sem gerist í samskiptum dómara sín á milli.

Ótvírætt gildi þeirrar reglu sannast nú, frétt Politico hafði varla birst fyrr en fólk safnaðist saman við byggingu hæstaréttar í Washington og lét í ljós skoðanir með og á móti réttinum til þungunarrofs. Þetta er gífurlega mikið hitamál í Bandaríkjunum. Tekist er á um það á götum úti jafnt og í þing- eða dómsölum.

Hæstaréttarbyggingin var strax víggirt. Verður lögð höfuðáhersla á að ekki gerist það sama þar og á næsta leiti, í þinghúsinu, þegar Donald Trump neitaði að viðurkenna ósigur sinn og æstur múgur réðst inn í þingsali í byrjun janúar 2021.

Ábyrgð dómara er mikil. Þeim ber að virða stjórnarskrá og lög og leysa úr ágreiningi á þann veg að stuðli að friði og jafnvægi í samfélaginu.

„Það mun vera satt, er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn“ sagði Þorgeir Ljósvetningagoði við kristnitökuna.

Átökin um þungunarrofið í Bandaríkjunum eru í ætt við deilur um kristnitöku. Þar er tekist á í krafti lífsskoðana. Bandarísk samfélags- og stjórnmálasaga segir að hæstarétti hafi með dómi sínum frá 1973 tekist að skapa sæmilegan frið. Verði friðurinn rofinn blasir við sundrung í tilfinningaþrungnum og trúarlegum þjóðfélagsátökum