3.12.2025 11:15

Friðarferli í öngstræti

Ef til vill er eina leiðin til að skilja þetta undarlega ferli að skoða persónurnar Pútin og Trump, styrk þeirra og veikleika. Þetta snúist um völd og peninga án þess að votti fyrir meðaumkun með þeim sem þjást vegna stríðsins.

Sendimenn Donalds Trump, Steve Witkoff og Jared Kushner, sátu þriðjudaginn 2. desember árangurslausan fimm klukkustunda fund með Valdimir Pútín Rússlandsforseta í Moskvu um frið í Úkraínu. Fyrir fundinn varaði Pútin Evrópuríki við því að hann væri reiðubúinn að fara í stríð við þau. Hann sagði:

„Evrópa leggur fram tillögur að friðaráætlun fyrir Úkraínu sem eru óásættanlegar fyrir Rússland… Rússar hafa ekki í hyggju að fara í stríð við Evrópulönd en ef Evrópa stofnar til stríðs eru Rússar nú þegar reiðubúnir.“

Fyrir tveimur vikum kynntu bæði Bandaríkjastjórn og síðar forysturíki Evrópu tillögur um frið í Úkraínu. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti hefur fundað með fulltrúum Evrópuþjóða undanfarna daga og fjölmenn sendinefnd Úkraínustjórnar átti fund með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á dögunum.

Úkraínumenn vantreysta Steve Witkoff. Laugardaginn 29. nóvember birti The Wall Street Journal langa grein þar sem sagt var að viðræður Witkoffs og Kushners við Pútin snerust um fjárfestingar og hver hefði mestan viðskiptalegan og fjárhagslegan hag af því að binda enda á stríðið í Úkraínu. Verðmiði væri lagður á allt.

Í upphaflegum tillögum Witkoffs var að finna bann við inngöngu Úkraínu í NATO, afsal Úkraínumanna á Donetsk- og Luhansk-héruðum til Rússa og mikinn niðurskurð úkraínska hersins. Nú er sagt að ekki sé lengur að finna þar ákvæði um landaafsal eða niðurskurð Úkraínuhers.

Screenshot-2025-12-03-at-11.14.04Kremlarkastali.

Bandaríkjastjórn vill standa eins og eftirlitsaðili með framkvæmd tillagnanna sem hún kynnir. Er það talið til marks um að Trump vilji marka skil á milli sín og evrópskra leiðtoga NATO-ríkja og ala á von Pútins um að honum takist að kljúfa NATO. Í þessu samhengi ber að líta á þá staðreynd að Marco Rubio situr ekki fund utanríkisráðherra NATO-ríkjanna sem haldinn er í Brussel í dag (3. des) og á morgun. Er það í fyrsta skipti síðan 1999 sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna tekur ekki þátt í reglulegum ráðherrafundi NATO-ríkja.

Enginn veit hvað gerist næst i svonefndu friðarferli vegna Úkraínu. Í hvert sinn sem Trump ræðir við Pútin er eins og hann telji sér skylt að jánka því sem Pútin segir og ýta hagsmunum Evrópu til hliðar. Rússar vilja ekki ræða við aðra en Bandaríkjamenn. Þetta kemur ekki á óvart, það kitlar valda- og hégómagirnd Pútins að sitja við hlið Trumps og með því að spila á aðdáunarþörf Trumps nær Pútin miklum árangri.

Ef til vill er eina leiðin til að skilja þetta undarlega ferli að skoða persónurnar Pútin og Trump, styrk þeirra og veikleika. Þetta snúist um völd og peninga án þess að votti fyrir meðaumkun með þeim sem þjást vegna stríðsins. Pútin getur ekki hætt án þess að missa völdin. Bakland hans, rússneskur efnahagur, hrynur líklega á undan honum. Horfist hann í augu við það veit enginn hvert leið hans liggur með Rússland.