20.11.2017 11:51

Fréttablaðið telur birtingu símtalsins valda Kjarnanum fjárhagstjóni

Kjarninn hefur sótt að fá að birta texta símtalsins „jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði [..,] Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni...“ segir í leiðara Fréttablaðsins.

Þegar vinstri stjórn sat hér 1971 til 1974 hittu þingmenn stjórnarflokkanna sem sátu allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna norska stjórnarerindrekann Arne Treholt sem síðar var dæmdur fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna. Á fundinum var meðal annars rætt um brottför varnarliðsins sem var meðal stefnumála ríkisstjórnarinnar. Frásögn af fundinum lak og var sagt frá honum í Morgunblaðinu.

Þegar það gerðist beindu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar umræðum um málið í þann farveg að upplýsa þyrfti hver hefði lekið skjalinu með frásögninni eða því hefði hugsanlega verið stolið. Af þessum sökum væri hneyksli að Morgunblaðið hefði birt efni reist á frásögninni. Þeir vildu alls ekki ræða efni málsins.

Þetta dæmi kemur upp í hugann nú þegar fylgst er með viðbrögðum sumra fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna við því að Morgunblaðið birti laugardaginn 17. nóvember endurrit af símtali Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra frá 6. október 2008.

Árum saman hefur þess verið krafist að leynd yrði svipt af þessu símtali. Í trúnaði hafa ýmsir haft aðgang að efninu við rannsóknir vegna bankahrunsins. Líklega hefur fjöldi manna fengið að sjá endurritið og ef til vill hlustað á upptökuna sem er til af samtalinu. Ef til vill veit enginn hve mörg endurrit eru til af símtalinu.

Ekkert í símtalinu styður samsæriskenningarnar sem birtar hafa verið um efni þess. Við afhjúpun þess spuna alls leita spunamiðlar á önnur mið eins og til dæmis má sjá í leiðara Fréttablaðsins í dag (20. nóvember) sem Magnús Guðmundsson skrifar. Að hans mati er óforsvaranlegt að Morgunblaðið hafi birt þennan texta meðal annars vegna þess hve fast vefmiðillinn Kjarninn hafi sótt að fá að birta textann „jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði,“ eins og Magnús segir og bætir við: „Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni...“

Magnús gefur sér að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi haft endurritið „á brott með sér með ólögmætum hætti [...] þegar hann var rekinn frá SÍ [Seðlabanka Íslands].“ Af fullyrðingagleði hrapar Magnús strax að niðurstöðu með ásökunum um lögbrot án minnstu viðleitni til að rannsaka málið eða upplýsa lesendur um hve margir geti legið undir grun í því. Þótt Davíð Oddsson hafi sem ritstjóri samþykkt birtingu á þessu skjali liggur ekkert fyrir um að það hafi komið úr vörslu hans. Heimildarmaðurinn er einfaldlega óþekktur.

Líklega reynir aldrei á það fyrir dómstólum að Magnús Guðmundsson standi við fullyrðingar sínar og ásakanir. Þær dæma sig sjálfar sem marklausar.

Björn Valur Gíslason, fyrrv. þingmaður og varaformaður VG, situr nú í bankaráði seðlabankans. Sem formaður fjárlaganefndar alþingis var helsta baráttumál hans að fá leynd aflétt af símtali Geirs og Davíðs. Nú boðar Björn Valur að hann ætli að kvarta undan því í bankaráðinu að leyndinni hafi verið aflétt! Aðferðin hafi verið röng.

Tvöfeldnin sem birtist í umræðum um þetta skjal er því miður ekki einsdæmi þegar litið er til framgöngu álitsgjafanna sem hafa það eitt að leiðarljósi að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem verstan.