20.12.2022 9:55

Fréttablað finnur sökudólg

Í Fréttablaðinu í dag (20. desember) er haft eftir framsóknarmanninum Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, að „ágætlega hafi tekist til með viðbrögð við erfiðar aðstæður“ þegar rætt er við hann um snjómokstur.

Í Fréttablaðinu í dag (20. desember) er haft eftir framsóknarmanninum Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, að „ágætlega hafi tekist til með viðbrögð við erfiðar aðstæður“ þegar rætt er við hann um snjómokstur í Reykjavík eftir hvellinn sem varð aðfaranótt laugardags 17. desember.

Alexandra Briem, Pírati, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, nagar sér í handarbökin vegna samnings borgarinnar við verktaka um snjómokstur og segist ætla að skoða hvort eigi að endurskoða hann.

„Alexandra játar að samningarnir geti verið ein helsta ástæða þess að borgin fór 500 milljónir yfir áætlun um snjómokstur síðasta vetur,“ segir í fréttinni sem Björn Þorláksson skrifar í Fréttablaðið. Hann spyr Alexöndru hvort „fákeppnismarkaður skýri hagstæða samninga fyrir verktaka“ og segir Alexandra það „vel geta verið vandann“.

Blaðamaðurinn er greinilega ekki á þeirri línu að einkaaðilar eigi að koma að snjómokstri og segir: „Ónógur snjómokstur á höfuðborgarsvæðinu hefur verið gagnrýndur harðlega.“ Þarna tekur hann meira upp í sig en í fréttinni segir því að þar er aðeins rætt við forráðamenn Reykjavíkurborgar en ekki minnst á hve skipulega var staðið að viðbrögðum á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði þar sem sjálfstæðismenn eru við stjórnvölinn.

Fréttablaðið er orðið svo flokkspólitískt að það birtist jafnvel í vinstrisinnuðum fréttum um misheppnaðan snjómokstur, hann sé verktökum að kenna. Það sem blaðamaðurinn hafði upp úr krafsi sínu orðar hann þannig:

„Til greina kemur að Reykjavíkurborg kaupi pallbíla með snjótennur til að hreinsa snjó í íbúðahverfum. Almenningsskóflur við ljósastaura gætu létt undir. Vilji er til að efla forræði borgarinnar í snjómokstri á kostnað verktaka.“

Einar Þorsteinsson gælir við hugmyndina um „pallbíla með snjótennur“ í eigu borgarinnar. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG í minnihluta borgarstjórnar, er pirruð og segir: „Í Japan getur snjóað hressilega og þar eru skóflur við ljósastaura, skóflur sem almenningur getur notað.“ Hún telur að „borgin eigi að vera sjálfstæðari í viðbrögðum með mannafla, tól og tæki þegar snjó hleður niður“. Tal um verkferla losi ekki bíla úr skafli. „Reykjavíkurborg ætti sjálf að taka yfir snjómoksturinn í stað þess að reiða sig alfarið á verktaka að mati Lífar,“ segir í fréttinni.

IMG_6338Í frétt Morgunblaðsins um snjómokstur á höfuðborgarsvæðinu segir í dag:

„Álíka mörg tæki sinntu snjómokstri í Reykjavík um helgina og í nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar búa þó mun færri og samanlögð lengd gatna sem þarf að ryðja er talsvert minni. Níu snjóruðningstæki voru á götum Reykjavíkur á laugardag og sunnudag og þrettán til viðbótar sinntu göngu- og reiðhjólastígum. Í Kópavogi voru alls 20 snjóruðningstæki að störfum yfir helgina, ýmist á götum bæjarins eða á göngustígum. Í Garðabæ, þar sem íbúarnir eru ríflega 18 þúsund, tókst að fara eina umferð um allar götur með 10 snjóruðningstækjum yfir helgina. Loks voru 19 snjóruðningstæki að sinna mokstri á lóðum, götum og stígum í Hafnarfirði þar sem tæplega 30 þúsund búa.“