Frávísun hryðjuverkaákæru
Dómarar gera ríka kröfu til þess að ákæruvaldið leggi fram skýrar upplýsingar um hvað raunverulega vaki fyrir mönnum sem leggja á ráðin um hryðjuverk.
Meirihluti landsréttar staðfesti föstudaginn 10. mars úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. febrúar um að vísa frá máli sem kennt er við hryðjuverk. Telja tveir af þremur dómurum landsréttar að í ákæru skorti nægilega „tilgreiningu“ á ætlaðri refsiverðri háttsemi þeirra tveggja karla sem héraðssaksóknari segir að lagt hafi á ráðin um og undirbúið hryðjuverk.
Í frétt á ruv.is 10. mars segir að tveir landsréttardómarar telji þann hluta ákærunnar standast kröfur til málssóknar þar sem annar maðurinn sé ákærður fyrir að ætla að valda ótilgreindum hópi fólks á ótilgreindum stað bana eða stórfelldu líkamstjóni og stefna lífi þess í hættu með stórfelldum eignaspjöllum. Veiki punktur ákærunnar sé tilvísun til orðfæris mannsins og yfirlýsinga sem ákæruvaldið telji sýna fram á að hann hafi ákveðið að fremja hryðjuverk. Dómararnir segja að tilgreina hefði þurft mun skýrar og nákvæmar hvaða orðfæri og yfirlýsingar sýndu fram á þetta. Að auki útlisti ákæruvaldið ekki nægilega vel hvað maðurinn hafi gert til undirbúnings hryðjuverkunum. Sama eigi við um þátt hins mannsins, sem var ákærður fyrir hlutdeild í brotum hans.
Einn dómaranna segir að fyrir liggi upplýsingar um athafnir fyrri mannsins áður en hann var handtekinn og að hlutlægt megi virða þær sem undirbúning að hryðjuverkum. Það hefði verið betra að taka fram í ákæru í það minnsta eitthvert dæmi um orðfæri og yfirlýsingar mannsins en að ákæran sé samt sem áður nógu skýr. Þá sé ljóst af gögnum málsins að sönnunarfærsla ákæruvaldsins beinist meðal annars að því að maðurinn hafi sótt og tileinkað sér efni frá mönnum sem hafa framið hryðjuverk. Dómarinn telur því ekki skilyrði til að vísa hryðjuverkaákærunni frá dómi.
Af þessari frétt má ráða að dómarar geri ríka kröfu til þess að ákæruvaldið leggi fram skýrar upplýsingar um hvað raunverulega vaki fyrir mönnum sem leggja á ráðin um hryðjuverk.
Mynd mbl.is/Eggert Jóhannesson.
Héraðssaksóknari segir að hann hafi farið í smiðju til saksóknara í Danmörku til að átta sig á hvernig staðið skyldi að gerð ákærunnar. Þar í landi hafa yfirvöld glímt við mál af svipuðum toga. Þau ráð sem hann fékk frá Dönum duga ekki til að íslenskir dómarar telji sér fært að samþykkja ákæruna. Spyrja má hvort dómarar þurfi einnig að leita sér fræðslu erlendis til að átta sig á eðli brota af þessu tagi, ekki hefur áður verið ákært hér af svipaðri ástæðu.
Of oft berast fréttir frá útlöndum um að einstaklingar sem refsivörsluaðilar töldu eðlilegt að gengju frjálsir þrátt fyrir rannsókn lögreglu á hátterni þeirra notuðu frelsið til hryðjuverks. Það gerist auðvitað ekki hér.
Í Baugsmálinu fræga neituðu dómarar á fyrstu stigum að samþykkja ákæru. Síðar fengu ákæruvaldið og dómarar meiri reynslu af efnahagsbrotamálum og nú er varla lengur deilt um hvernig ákæru í slíkum málum skuli háttað. Vonandi verður þróunin ekki á sama veg vegna grunsemda um hugsanleg hryðjuverk.