Frans páfi fólksins
Frans er minnst sem páfa fólksins, friðar og félagslegs réttlætis. Hann höfðaði sterkt til þeirra sem minnst máttu sín.
Frans páfi andaðist að morgni annars dags páska, 21. apríl, 88 ára að aldri eftir að hafa glímt við lungnabólgu í febrúar. Læknar hans og ráðgjafar vildu að hann færi sér hægt í dymbilvikunni.
Páfinn hafði varnaðarorðin að engu og mælti fáein blessunarorð yfir mannfjöldanum sem kom saman á Péturstorginu í Róm. Páskaboðskapur hans var hins vegar fluttur af öðrum. Aðfaranótt mánudagsins fékk hann heilablóðfall og hjartabilun. Laugardaginn 26. apríl verður páfi borinn til grafar í 266. skipti.
Frans vildi ekki verða jarðsettur í Péturskirkjunni og verður hann lagður til hinstu hvílu í Santa Maria Maggiore, kirkjunni efst á Esquilino-hæðinni í Róm.
Frans páfi hvílir í opinni kistu á heimili sínu.
Frans páfa er minnst sem fyrsta jesúítans sem varð páfi og fyrsta mannsins sem fæddur var í Suður-Ameríku til að njóta þessa mikla trausts og heiðurs. Er minningu hans sérstaklega haldið á loft í heimalandi hans, Argentínu.
Frans var kjörinn páfi árið 2013 þegar forveri hans Þjóðverjinn Benedikt páfi XVI varð fyrstur páfa til að afsala sér páfadómi í 600 ár. Hann andaðist 31. desember 2022.
Frans er minnst sem páfa fólksins, friðar og félagslegs réttlætis. Hann höfðaði sterkt til þeirra sem minnst máttu sín. Hann varaði við hættunni af loftslagsbreytingum og heimilaði þjónum kaþólsku kirkjunnar að veita samkynhneigðum pörum blessun. Hann gerði upp við íhaldssemi í kirkjunni, til dæmis að messan væri sungin á latínu. Hann þótti stjórnsamur og fastur fyrir.
Í aðdraganda þess að kardínálarnir 138 koma saman á lokaða kjörfundinum (conclave) 15 til 18 dögum eftir andlát páfa hittast þeir á óformlegum samráðsfundum til að skiptast á skoðunum um stöðu kirkjunnar, strauma og stefnur. Það var á þeim fundum sem Jorge Mario Bergoglio, kardínáli frá Buenos Aires, ávann sér stuðning og virðingu í mars 2013 fyrir málflutning sinn og framgöngu.
Á þessari stundu veit enginn hver verður valinn af kardínálunum þegar þeir koma saman á bak við luktar dyr Sixtínsku kapellunnar skammt frá Péturskirkjunni. Þekktasta myndin í hvelfingu kapellunnar yfir þeim er Fæðing Adams. Mynd sem Michelangelo málaði á mitt loftið af því þegar Guð hleypir lífi í Adam, fyrsta manninn á jörðinni. Guð er ásamt englum sínum og teygir hönd sína niður til Adams sem liggur á jörðinni og fingur þeirra nánast snertast. Gerð verksins lauk árið 1512.
Í tíð Frans páfa hefur staða kaþólsku kirkjunnar einkum eflst utan Evrópu en innan álfunnar eru viðhorf margra íhaldssamari en hjá Frans heitnum. Á fundunum sem nú fara í hönd í Vatíkaninu kunna línur að skerpast á milli íhaldssemi og frjálslyndis og þar getur landafræði ráðið miklu og því að arftaki Frans komi einnig frá landi utan Evrópu eða Norður-Ameríku.
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, snerist til kaþólskrar trúar sumarið 2019 35 ára gamall eftir að hafa kynnst reglu dóminíkanskra munka í Cincinnati í Ohio. Vance fékk að ganga á fund Frans páfa á páskadag. Fundur þeirra er nú nefndur til marks um að innan kaþólsku kirkjunnar takast á ólík viðhorf til þjóðfélagsins. Þau munu örugglega setja svip á valið á eftirmanni Frans páfa.