Framsókn og Viðreisn bítast um miðjuna
Meginstefna Viðreisnar er reist á jaðarsjónarmiðum þeirra sem vilja Ísland í ESB og að íslensku krónunni sé kastað fyrir róða.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir flokk sinn eina raunverulega miðjuflokkinn. Í kynningarræðu á kosningastefnuskrá flokksins fimmtudaginn 26. ágúst sagði hann að stefna Miðflokksins rímaði ekki við flokksnafnið. Miðflokksmenn legðu áherslu á hluti sem hefðu „lítið með miðjuflokksstefnu að gera“.
Þess vegna þyrði hann að halda þessu fram fullum fetum. Hann sagði sama gilda um Viðreisn og Flokk fólksins og fleiri flokka sem sæktust eftir að vera í því sem hann kallaði „miðjuflokkabandalagið“. Þeir „ættu kannski heima með einhverjum öðrum miðað við þær stefnur sem þeir birta“. Á hinn bóginn útilokuðu framsóknarmenn ekki samstarf með neinum. Flokksformaðurinn sagði:
„Við höfum hingað til ekki útilokað nokkurn, en það liggur svo sem í augum uppi að þeir flokkar sem eru fjarlægastir okkur í málefnum séu ólíklegri en það á kannski bara eftir að koma í ljós hverjir það eru.“
Í stuttu máli má segja að enn standi allar dyr Framsóknarflokksins opnar. Spurningin er hvað það varir lengi.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Í Fréttablaðinu birtist í dag (27. ágúst) grein eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, undir fyrirsögninni: Förum af jöðrunum. Efni greinarinnar er að höfundurinn eigi að fá sæti við ríkisstjórnarborðið, nú sé „kominn tími til að miðjan í íslenskri pólitík“ fái þar „raunveruleg áhrif“. Fjölga þurfi þingsætum flokkanna „næst miðjunni frá hægri og vinstri“ annars haldi „stjórn vinstri og hægri jaðranna áfram“.
Til að rökstyðja þetta grípur flokksformaðurinn til ósanninda eins og þeirra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „komið í veg fyrir þær stjórnarskrárbreytingar sem þjóðin kallar eftir, svo ekki sé talað um alvöru aðgerðir í loftslagsmálum“. Fyrir þessari fullyrðingu eru einfaldlega engin rök.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vann að heildarsátt í stjórnarskrármálinu. Píratar og Samfylking rufu hana vegna dálætis á „nýju stjórnarskránni“ sem er orðin að listrænum gjörningi án þess efnið skipti nokkru. Styður Viðreisn „nýju stjórnarskrána“? Er hún sameiningarskjal Viðreisnarmiðjunnar? Hvar hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið gegn „alvöru aðgerðum“ í loftslagsmálum? Hverjar eru þessar aðgerðir Viðreisnarformannsins?
Eins og Sigurður Ingi Jóhannsson sagði getur Viðreisn einfaldlega ekki gert neitt tilkall til þess að skilgreina sig sem miðjuflokk. Meginstefna Viðreisnar er reist á jaðarsjónarmiðum þeirra sem vilja Ísland í ESB og að íslensku krónunni sé kastað fyrir róða. Viðreisn er því réttnefndur jaðarflokkur. Hún gengur meira að segja lengra í ESB-aðildaráróðri en Samfylkingin, skipar sér ESB-megin við hana. Viðreisn er á jaðrinum og gætir sérhagsmuna þeirra sem telja fjárhag sínum best borgið með evrum en ekki íslenskum krónum.
Að flokksformaður Viðreisnar ákveði nú fjórum vikum fyrir kosningar að ganga fram fyrir skjöldu sem leiðtogi „miðjuflokkabandalags“ sem hvorki er fugl né fiskur er í góðu samræmi valdabröltið sem hefur frá upphafi verið meginstef ráðamanna flokksins og birtist í orðsendingaskiptum og afsökunarbeiðnum í æðstu röðum hans.