Framsókn og flugvöllurinn
Árið 2014 bjargaði framsókn lífi sínu í borgarstjórnarkosningum með flugvallarvinum. Nú verður að bjarga borgarstjóra framsóknar með aðför að Reykjavíkurflugvelli.
Almenn skynsemi segir að ekki verði lagður flugvöllur í Hvassahrauni í fyrirsjáanlegri framtíð hvað sem líður nýlegum tilmælum sérfræðinefndar um að nefndir ræði áfram og rannsaki svæðið sem flugvallarstæði.
Allar vangavelturnar um nýjan flugvöll í stað Reykjavíkurflugvallar og afneitun á að aðrir kostir vegna flugvallar á höfuðborgarsvæðinu finnist ekki miða aðeins að því að réttlæta framkvæmdir í Vatnsmýrinni sem gera að lokum ókleift að nota völlinn vegna skorts á flugöryggi.
Í því sambandi nægir að benda á neitun borgaryfirvalda undir forystu Dags B. Eggertssonar um að grisja trjágróður í Öskjuhlíðinni að kröfu yfirvalda sem gefa út leyfi um heimild til flugs yfir hlíðina til og frá vellinum. Þvermóðska borgaryfirvalda í því efni er ekkert annað en meinbægni.
Framkvæmdirnar sem nú eru á döfinni eru til hægri við brautina sem teygir sig í átt til sjávar og að flugskýlinu við enda hennar
Nú eru sagðar fréttir af því að í undirbúningi sé að afhenda Reykjavíkurborg flugvallarland í Skerjafirði. Ætlunin sé að færa flugvallargirðingar í samræmi við tilmæli Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra nú í september.
Við þetta hverfa um tíu hektarar af athafnasvæði flugvallarins að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla Isavia, á ruv.is í dag (24. október). Þarna sé núna æfingarsvæði slökkviliðs og líka grasbalar og mýri, svæði sem starfsmenn Isavia sem gæta öryggis á flugvellinum nota til að lesta snjó við ruðning brauta í vetrarveðrum.
Í sömu frétt segir að á island.is sé nú listi þar sem þeir geta skráð nafn sitt sem vilja skora á núverandi innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, að afturkalla fyrirmæli Svandísar um þessa aðför að flugvallarlandinu.
Á svæðinu sem um er að ræða vill Reykjavíkurborg að rísi þriggja til fimm hæða hús. Bent hefur verið á að húsin muni mynda skjólvegg fyrir suðvestanátt og skapa þannig nýjar aðstæður á flugvellinum sem áður var opinn fyrir vindflæði.
„Það versta sem gerist á flugbrautum er að það verði skyndilega svona lognpollur þegar þú ert að taka af stað eða lenda,“ segir Sigrún Björk.
Vinstrisinnar undir forystu Samfylkingarinnar hafa undanfarna áratugi viljað rýra öryggi Reykjavíkurflugvallar stig af stigi í von um að einn góðan veðurdag sitji borgarbúar og þjóðin öll uppi með þann úrskurð að vegna landnáms, nýbygginga og trjágróðurs verði af öryggisástæðum að banna allt almennt flug um völlinn.
Þeir sem vinna að þessu vilja að samhliða því sem þeir ná sínu fram í samvinnu við vinsamlega ráðherra og skoðanabræður í kerfinu sé haldið lífi í umræðum um að víst sé annar kostur fyrir hendi, í Hvassahrauni.
Nú kemur í ljós hvort Sigurður Ingi Jóhannsson stöðvar það sem ætlunin er að gerist í Skerjafirði að fyrirmælum Svandísar. Ólíklegt er að hann beiti valdi sínu í þágu flugvallarins því að í skjóli Dags B. situr framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson sem borgarstjóri. Honum eru mjög mislagðar hendur eins og dæmin sanna og hefur hann tæplega nokkra burði til annars en hvetja Sigurð Inga til að aðhafast ekkert og leggja því enn eitt lóð á vogarskálina gegn Reykjavíkurflugvelli. Árið 2014 bjargaði framsókn lífi sínu í borgarstjórnarkosningum með flugvallarvinum. Nú verður að bjarga borgarstjóra framsóknar með aðför að Reykjavíkurflugvelli.