22.9.2021 9:27

Framsókn í skotlínu

Vegna athyglinnar sem Framsóknarflokkurinn nýtur og spádóma um að hann styrki stöðu sína beina andstæðingar hans í vaxandi mæli spjótum að flokknum.

Dagmál sjónvarpsþáttur Morgunblaðsins flytur líflegt pólitískt efni viðtölum þeirra Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar. Af fréttum í blaðinu má ráða að þar sé spurt og rætt á annan veg en í stöðluðu formi ríkisútvarpsins sem teygir sig einnig inn á Stöð 2 enda er stjórn þátta á stöðvunum í höndum fréttamanna sem skipa má vinstra megin við miðju á pólitíska ásnum.

Yfir stjórnmálasamtölum gamalgrónu sjónvarpsstöðvanna er lognmolla pólitísks rétttrúnaðar sem gerir þau óspennandi. Samtölin boða einnig fyrirsjáanlegar umræður um kosninganóttina þar sem fastir liðir verða eins og venjulega, ef til vill með einhverjum tækniframförum. Boðskapur álitsgjafanna sem er hættur að koma öðrum á óvart en þeim sem hlusta á þá í fyrsta skipti.

1298645Dagmál, sjónvarpsþáttur Morgunblaðsins hefur styrkt stöðu sína með líflegum kosningaviðtölum og þáttum sem skáka óspennandi þáttum gamalgrónu sjónvarpsstöðvanna. Myndin birtist í blaðinu og er frá kappræðum Dagmála, tveimur þáttum sem sýndir eru í dag, 22. september. Frá vinstri: Logi Einarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson,

Morgunblaðinu hefur ekki aðeins tekist að gefa nýjan tón og takt í kosningabaráttuna með sjónvarpsþáttunum, fréttirnar sem unnar eru úr þáttunum eru með því líflegra sem birtist um stjórnmál líðandi stundar. Þegar rætt er um daufa kosningabaráttu er ekki við stjórnmálamenn og frambjóðendur eina að sakast heldur ekki síður við þá sem lýsa leiknum og leggja sig fram um að draga það fram sem veldur ágreiningi og skapar spennu.

Á lokadögum kosningabaráttunnar hefur meiri athygli en áður beinst að Framsóknarflokknum. Flokkurinn hefur almennt siglt lygnan sjó og kynnir sjálfan sig til leiks sem þann kostinn sem allir geti sætt sig við nenni þeir ekki að setja sig sérstaklega inn í mál, hann sé með öðrum orðum lægsti samnefnari með samstarfslím bæði til hægri og vinstri.

Vegna athyglinnar sem Framsóknarflokkurinn nýtur og spádóma um að hann styrki stöðu sína beina andstæðingar hans í vaxandi mæli spjótum að flokknum.

Í fréttum Morgunblaðsins í dag (22. september) af samtölum við leiðtoga stjórnmálaflokkanna í Dagmálum má sjá að spjótum er meira beint að Framsóknarflokknum en áður og til harðra orðaskipta kom milli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Í frétt blaðsins segir:

„Flokkana greinir einnig á um hver þeirra eigi tilkall til forystunnar á miðju stjórnmálanna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði Framsóknarflokkinn ekki rísa undir því og beindi orðum sínum m.a. að embættisfærslu Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Sagði hún að „enginn miðjuflokkur færi í mál við konu sem leitaði réttar síns í jafnréttismáli“.

Tók Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins fálega í þessa sendingu Þorgerðar Katrínar og sagði það ekki aðferðafræði flokks síns að ráðast gegn öðrum flokkum í baráttunni.“

Fleiri en Þorgerður Katrín minnast á það mál sem hún nefnir nú á lokadögunum þegar rýnt er í stjórnarhætti framsóknarmanna. Sigurði Inga dugar ekki að skjóta boltann út af vellinum. Enginn flokkur er svo lágur samnefnari að hann láti ekki í ljós skoðun á öðrum flokkum hvað svo sem boðaðri aðferðafræði kosningastjóra líður.