4.7.2020 10:05

Framhaldslíf Snorra

Hugmynd okkar í Snorrastofu er að sett verði upp sýning í héraðsskólahúsinu í Reykholti til að halda framlagi Snorra til heimsmenningarinnar á loft.

Snorrastofa og Háskóli Íslands ýttu árið 2016 úr vör alþjóðlega rannsóknarverkefninu Heimskringla og framhaldslíf Snorra Sturlusonar (Heimskringla and the Afterlife of Snorri Sturluson). Hugmyndin að baki verkefninu er að gera tilraun til að taka saman einskonar mynd af áhrifum höfundarverks Snorra.

Hugmynd okkar í Snorrastofu er að sett verði upp sýning í héraðsskólahúsinu í Reykholti til að halda framlagi Snorra til heimsmenningarinnar á loft.

Snorri_sturluson_1930Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) kynnti í vikunni nýtt merki sambandsins sem reist er á höfundarverki Snorra, það er lýsingum hans á landvættunum.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor segir í Morgunblaðinu í dag (4. júlí):

„Sagan af landvættunum í Heimskringlu er ein haglegasta smíði Snorra og hefur djúpa merkingu. Snorri hefur sagt Hákoni konungi og Skúla jarli hana í fyrri Noregsför sinni 1218-1220, en þá varð hann að telja þá af því að senda herskip til Íslands í því skyni að hefna fyrir norska kaupmenn, sem leiknir höfðu verið grátt. Snorri gerði þetta að sið skálda, óbeint, með sögu, alveg eins og Sighvatur Þórðarson hafði (einmitt að sögn Snorra) ort Bersöglismál til að vanda um fyrir Magnúsi konungi Ólafssyni án þess að móðga hann.

Saga Snorra hefst á því, að Haraldur blátönn Danakonungur slær eign sinni á íslenskt skip, og þeir taka í lög á móti, að yrkja skuli um hann eina níðvísu fyrir hvert nef á landinu. Konungur reiðist og sendir njósnara til Íslands í því skyni að undirbúa herför. Sendiboðinn sér landvættirnar og skilar því til konungs, að landið sé lítt árennilegt. Auðvitað var Snorri að segja þeim Hákoni og Skúla tvennt: Geri þeir innrás, eins og þeir höfðu í huga, þá muni Íslendingar nota það vopn, sem þeir kunnu best að beita, orðið. Skæð sé skálda hefnd. Og erfitt væri að halda landinu gegn andstöðu íbúanna, en landvættirnar eru í sögunni fulltrúar þeirra.

Skúli og Hákon skildu það, sem Snorri var óbeint að segja þeim, og hættu við herför til Íslands. Það er hins vegar ótrúlegt að sjá íslenskan rithöfund höggva á þennan hátt til Snorra. Eigi skal höggva.“

Rithöfundurinn sem Hannes Hólmsteinn nefnir er Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem fordæmdi „heilaspunann úr Snorra Sturlusyni um ófreskjur“ í tilefni af myndbandi KSÍ.

Það er langsótt að gera Snorra ábyrgan fyrir því hvernig lagt er út af orðum hans af myndasmiðum KSÍ. Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, segir um myndband KSÍ:

„Þetta er hámark heimskunnar, að láta svona frá sér. Ég veit ekki hvort þarna eru börn að verki eða vanvitar, eða hvort það er virkilega verið að meina þetta.“

Í þessu KSÍ-myndbandi eru orð Snorra túlkuð á svo frumstæðan hátt að höfundarverk hans er sett í skúffu þeirra sem nota það til að ýta undir öfgasjónarmið. Vonandi verður KSÍ-framtakið til þess að auka skilning á gildi þess að rannsaka framhaldslíf höfundarverks Snorra Sturlusonar og sporna gegn misnotkun á því. Á blóðugri Sturlungaöld áréttaði Snorri mátt orðsins og skáldsins.