20.3.2022 10:22

Framboðslistar fæðast

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík dró eðlilega að sér mesta athygli enda má segja að mest sé í húfi fyrir flokkinn að hann nái vopnum sínum í höfuðborginni.

Efstu sæti á þremur framboðslistum Sjálfstæðisflokksins voru ákveðin í prófkjörum laugardaginn 19. mars. Fyrst nefni ég listann í sveitarfélagi mínu, Rangárþingi eystra. Þar varð röðin þessi.

1. Anton Kári Halldórsson með 122 atkvæði

2. Árný Hrund Svavarsdóttir með 84 atkvæði í 1. – 2. sæti

3. Sigríður Karólína Viðarsdóttir með 65 atkvæði í 1. – 3. sæti

4. Elvar Eyvindsson með 100 atkvæði í 1. – 4. sæti

5. Sandra Sif Úlfarsdóttir með 63 atkvæði í 1. – 5. sæti

6. Ágúst Leó Sigurðsson með 68 atkvæði í 1. – 6. sæti

Anton Kári fékk 90,4% atkvæða en hann sóttist einn eftir sætinu. Þetta staðfestir þá miklu eindrægni sem ríkti í prófkjörinu. Anton Kári var sveitarstjóri fyrri hluta líðandi kjörtímabils í samstarfi við Framsóknarflokkinn en seinni hluta tímabilsins hefur Lilja Einarsdóttir gegnt starfi sveitarstjóra.

Fyrir viku efndu sjálfstæðismenn í Rangárþingi ytra til prófkjörs, þar tókust fleiri en einn á um efsta sætið enda gaf Ágúst Sigurðsson ekki á kost á sér til endurkjörs. Niðurstaða prófkjörsins þar var að Ingvar Pétur Guðbjörnsson Ingvar Pétur Guðbjörnsson, upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins og blaðamaður á Hell hlaut oddvitasætið.

Sjálfstæðismenn í Árborg völdu fulltrúa á lista sinn laugardaginn 19. mars og þar hlaut Bragi Bjarnason fyrsta sæti. Bragi er menntaður íþróttafræðingur og hefur starfað sem deildarstjóri frístunda- og menningardeildar.

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík dró eðlilega að sér mesta athygli enda má segja að mest sé í húfi fyrir flokkinn að hann nái vopnum sínum í höfuðborginni. Skoðanakannanir sýna sveiflur í stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Er bæði tímabært og brýnt að þar verði vörn snúið í sókn.

1317665Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í kosningum til borgarstjórnar 14. maí 2022 (mynd: mbl.is/Sigurður Bogi).

Hér hefur undanfarna mánuði oftar en einu sinni verið minnst á vandræðaganginn við að ákveða fyrirkomulagið við val á listanum í Reykjavík. Fyrst samþykkti meirihluti stjórnar Varðar öllum að óvörum að fram færi í leiðtogaprófkjör. Þegar ákvörðunin sætti mikilli gagnrýni breytti meirihlutinn um stefnu og vildi að þeir sem tækju þátt í prófkjörinu skráðu sig með tveggja vikna fyrirvara á kjörskrá. Þessi ákvörðun varð einnig að engu og fjölmennur Varðarfundur ákvað opið prófkjör í samræmi við almennar flokksreglur.

Þarna var skaðleg undiralda sem aldrei skýrðist til fulls. Hún fældi samt ekki gott fólk frá að bjóða sig fram þótt ímynd flokksins skaddaðist algjörlega af tilefnislausu.

Leikar fóru þannig 19. mars að Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sigraði og er hún vel að sigrinum komin eftir málefnalega kosningabaráttu þar sem hún hefur með gildum rökum gagnrýnt brotalamir í stjórn borgarinnar undir forystu Dags B. Eggertssonar.

Nú hlýtur Vörður að hafa hraðar hendur við að ákveða framboðslistann formlega svo að Hildur og félagar fái skýrt umboð til að taka kosningabaráttuna í sínar hendur og leiða hana til sigurs. Innan við tveir mánuðir eru til kosninga!