23.1.2022 10:55

Frakkar sigraðir

Í Le Figaro er lýst miklum vonbrigðum með leik Frakka en jafnframt sagt að meira að segja Frakkar hafi hrifist af kraftinum í liði Íslendinga.

„Dapurlegt afmæli. Í hundraðasta leik sínum í sögu EM varð karlalandslið Frakka í handbolta að bergja á beiskum bikar, laugardaginn 22. janúar, gegn Íslandi. Sigraðir og leik í þar sem Íslendingar höfðu jafnan yfirhöndina urðu liðsmenn fyrirliðans Valentins Porte að sætta sig við mesta ósigur í sögu sinni í EN-keppni (21-29). Óviðjafnanlegur leikur þar sem markmaðurinn Viktor Hallgrímsson (21 árs), varamaður, jók á kvöl bláu sóknarmannanna. Með því að stöðva 15 skot tryggði íslenski markmaðurinn liði sínu sigur þótt það ætti verulega undir högg að sækja vegna Covid-19.“

Þetta er lausleg þýðing á upphafi þess sem franska blaðið Le Monde hafði að segja um leik Frakka (les bleus – þeir bláu) við Íslendinga á Evrópumótinu (EM) í handbolta laugardaginn 22. janúar 2021.

B4fdb68_5383105-01-06Á mbl.is var 22. janúar rætt við Guðmund Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfara sem sagði:

„Þetta var stórkostlegur leikur og ólýsanlegur raunverulega. Við spiluðum stórkostlegan handbolta og það þurfa menn að gera ef þeir ætla að vinna ólympíumeistarana....Varnarleikurinn var í heimsklassa, markvarslan var í heimsklassa og sóknarleikurinn var í heimsklassa. Ég ætla bara að segja þetta eins og þetta [er]. Þú þarft að spila á þessum nótum ef þú ætlar að vinna Frakka með átta marka mun.“

Í Le Figaro er lýst miklum vonbrigðum með leik Frakka en jafnframt sagt að meira að segja Frakkar hafi hrifist af kraftinum í liði Íslendinga. Sérstakt lof er borið á Viktor Gísla markmann. Má lesa á milli línanna að Frakkar sætti sig betur en ella við ófarir sínar vegna þess hve Íslendingar sýndu mikla yfirburði bæði þegar litið sé til framgöngu einstakra leikmanna og leikaðferðarinnar. Þá er nefnt að Viktor Gísli gangi til liðs við franska félagið Nantes frá og með keppnistímabilinu 2022-2023. Eru það sárabætur fyrir Frakka.

Guðmundur landsliðsþjálfari sagði við mbl.is að sóknarleikurinn hefði verið endurskipulagður sama dag og leikurinn fór fram þegar hann frétti að enn tveir leikmenn hefðu smitast af Covid-19. Mikið hefði þurft að gera á skömmum tíma. Það skilaði greinilega góðum árangri. Alls voru átta leikmenn smitaðir í íslenska hópnum á leikdeginum auk annars sjúkraþjálfarans.

Íslenska liðið er að sjálfsögðu ekki eina liðið sem glímir við vanda vegna faraldursins í Búdapest. Þar virðist hafa verið staðið þannig að málum af hálfu skipuleggjenda að allar varúðarráðstafanir sem lið gerðu fyrir komuna til Búdapest máttu sín einskis vegna þess hvernig búið var að mönnum þar.

Glæsilegi sigurinn á Frökkum sannaði hve stór og góður hópur frábærra handboltamanna stendur að baki íslenska landsliðinu. Að íslenskir þjálfarar standi síðan að baki öflugra landsliða á EM-mótinu er einnig til marks um mikla grósku og góðan árangur.

Til hamingju!