Frá Völuspá til qi gong
Í qi gong er líkamanum líkt við tré (Ask Yggdrasil). Trjástaðan er grunnstaða qi gong, maðurinn skýtur rótum í jörðina, jarðtengir sig, og tengir hvirfilinn í himinfestinguna – opnar hann fyrir birtu.
Hið íslenska bókmenntafélag gaf á dögunum út litla bók, Rætur Völuspár. Þar eru átta greinar, að stofni til fyrirlestrar á málþinginu Völuspá – norrænn dómsdagur, sem haldið var í Þjóðminjasafninu 18. janúar 2014.
Frumkvöðull málþingsins var Pétur Pétursson, nú prófessor emeritus í kennimannlegri guðfræði við Háskóla Íslands. Í námi sínu hugleiddi hann hvernig kristið táknmál og kristnar hugmyndir festu rætur i nýrri menningu og hvernig kristnin aðlagar sig og tekur upp ýmislegt úr fornkristnu táknmáli og hugmyndaheimi. Hann glímdi við þá tilgátu að tengsl væru á milli býsanskra dómsdagsmynda (íkona) og Völuspár, „mikilvægasta kvæðis norrænna miðalda“ segir á bókarkápu og einnig:
„Í greinunum er fjallað um rannsóknir á miðaldatextum með áherslu á nýjar rannsóknir á Völuspá og tengsl kvæðisins við myndræna túlkun miðalda svo og frásagnir er fjalla um endalok heimsins, dómsdag, nýjan himin og nýja jörð. Ýmsum spurningum um slík efni er svarað í þessari bók, þótt hún sé aðeins skref á langri og heillandi leið.“
Í stuttu máli er þarna mikill fróðleikur dreginn saman til skýringa og ályktana fyrir þá sem hafa áhuga á að öðlast skilning á forna arfinum sem leggur grunn að menningu okkar og þar með stöðu í samfélagi þjóðanna. Af lestri bókarinnar má einnig fá skarpari sýn á samtímaatburði eins og innrás Rússa í Úkraínu sem leiðir nú um þessi jól til klofnings innan rétttrúnaðarkirkjunnar sem lotið hefur boðvaldi frá Moskvu. Úkraínumenn hallast nú til dæmis að því að halda jól 25. desember í stað 7. janúar eins og Moskvuvaldið krefst.
Haraldur Erlendsson, sérfræðingur í geðlækningum og stundakennari í trúarlífssálarfræði við Háskóla Íslands, minnir á að í norrænni goðafræði sé talað um þrjá heima: Ásgarð, Miðgarð og Útgarð, sálfræðilega megi líta á þá sem vitræna, tilfinningalega og hvatlega þætti í manninum. Í líkamanum megi segja Ásgarð í höfðinu, Miðgarð í brjóstinu og Útgarð í kviðnum.
Hann vitnar í rit um kínverska læknisfræði og nefnir qi gong til sögunnar, kínversku orkuæfingarnar sem stundaðar hafa verið í 5000 ár og hér í nokkra áratugi. Þar er einmitt talað um þrjár meginaflstöðvar líkamans: lægri dan tian, frumkraftinn, mið dan tian, orkuna og efri dan tian (shen), vitundina, andann. Haraldur segir: „Iðavöllur, heimur móðurinnar, gæti verið líkaminn sjálfur.“
Í qi gong er líkamanum líkt við tré (Ask Yggdrasil). Trjástaðan er grunnstaða qi gong, maðurinn skýtur rótum í jörðina, jarðtengir sig, og tengir hvirfilinn í himinfestinguna – opnar hann fyrir birtu. Í þessari stöðu er hugleitt með því að anda inn um nefið með tunguna í efri góm og niður að framan og upp um bakið, út um munninn og síðan inn með tunguna í efri góm – mynda hringrás orkunnar. Haraldur kallar aflstöðvarnar þrjár fjársjóði og segir:
„Fjársjóðina þrjá má tengja við brunnanna þrjá í trénu: Mímisbrunnur í höfðinu, Urðarbrunn í brjóstholinu og Hvergemli í kviðnum. Þessu til marks má t.d. nefna að Óðinn mælir við Mímishöfuð sem er í trénu.“
Þetta er forvitnileg tenging á milli fornra menningarheima.