9.8.2018 14:41

Frá Nürnberg á Klambratún

Það var hressandi að njóta þess að nýju að anda að sér svalandi loftinu í morgun,

Hitinn í Bæjarlandi undanfarna daga fældi fólk frá að standa úti í sólinni og gera qi gong æfingar eins og hópurinn á myndinni sem æfði á Klambratúni í morgun. Þrátt fyrir rigningarveður í sumar hefur ekki neinn tími æfinganna á Klambratúni fallið niður frá því að þær hófust þarna 19. júní og verður þeim haldið áfram til 23. ágúst (þriðjudaga og fimmtudaga kl. 11.00). Það var hressandi að njóta þess að nýju að anda að sér svalandi loftinu í morgun (9. ágúst).

Img_6861Myndin er tekin á qi gong æfingu á Klambratúni að morgni 9. ágúst. Það var svalandi að anda að sér loftinu hér eftir 30+ hitann í Bæjaralandi.

Flugið með þýska félaginu Germania gekk eins og í sögu og allt var á áæltun. Tók um þrjá tíma og tuttugu mínútur að fljúga frá Nürnberg til Keflavíkur. Lent var rétt um kl. 01.00 og sneri vélin síðan aftur til Nürnberg. Germania hefur hlotið viðurkenningu sem besta þýska flugfélagið.

Kosið verður til sambandslandsþings Bæjaralands í október og benda kannanir til þess að Kristilegir sósíalar (CSU) missi hreinan meirhluta sinn á þinginu eins og þeir hafa gert nokkrum sinnum á þeim 70 árum sem hafa haft undirtökin í stjórnmálum sambandslandsins. Með hverjum þeir mynda meirihluta að kosningum loknum ræðst af úrslitunum en því er ekki spáð að þeir verði utan stjórnar landsins næsta kjörtímabil.

Það er komið að því að skipta um forystu hjá CSU eins og systurflokknum CDU þar sem Angela Merkel hefur skipað leiðtogasætið og verið kanslari frá 2005.

Þýsk stjórnmál bera merki um þreytu og skort á nýjum hugmyndum. Einmitt þess vegna vakti það meiri athygli en ella fyrir fáeinum dögum þegar Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK), framkvæmdastjóri CDU, vakti máls á því að taka upp að nýju skyldu til að gegna herþjónustu eða samfélagsþjónustu kjósi ungt fólk það frekar.

Sumir telja að með þessu hafi AKK ekki aðeins lýst áhuga á málefni sem henni er kært heldur einnig viljað draga athygli að sjálfri sér en hún var forsætisráðherra í Saarlandi þar til í febrúar 2018 þegar Merkel gerði hana að framkvæmdastjóra flokksins. Er almennt litið svo á að Merkel hafi með þessu búið flokkinn undir að velja AKK sem eftirmann sinn.

Að vísu má segja að hugmyndaflug AKK sé ekki mikið því að skyldan til herþjónustu var aflögð í Þýskalandi árið 2011. Angi þessa máls kann að vera vilji til að sýna Donald Trump Bandaríkjaforseta að Þjóðverjum sé ekki alls varnað hernaðarlega en hann gagnrýnir þá hvað eftir annað fyrir að leggja ekki nægilega mikið af mörkum til NATO.

Framtak AKK minnir á að stjórnmálamenn verða að sýna frumkvæði og hreyfa hugmyndum sem vekja athygli og umræður vilji þeir rjúfa ládeyðuna.