13.11.2025 11:56

Frá London í Efstaleiti

Liddle segir að starfsmenn BBC skilji ekki þegar fundið sé að því að útvarpsstöðin sé hlutdræg, þeir telji það einfaldlega ímyndun, af því að þeir geti ekki viðurkennt að hlutdrægnin felist í þeim sjálfum og vinnubrögðum þeirra.

Rod Liddle var á sínum tíma stjórnandi þáttarins Today á Radio 4 hjá BBC. Hann skrifar nú dálk í vikuritið The Spectator og fjallar í dag (13. nóv.) um vanda breska ríkisútvarpsins eftir að útvarpsstjórinn, Tim Davie, og aðalfréttastjórinn, Deborah Turness, neyddust til að segja af sér í byrjun vikunnar vegna fréttafalsana um Donald Trump og annarra ávirðinga sem getið var í úttekt innan húss en lekið til The Telegraph.

Screenshot-2025-11-13-at-11.55.02

Liddle segir að starfsmenn BBC skilji ekki þegar fundið sé að því að útvarpsstöðin sé hlutdræg, þeir telji það einfaldlega ímyndun, af því að þeir geti ekki viðurkennt að hlutdrægnin felist í þeim sjálfum og vinnubrögðum þeirra.

Hann segist ýmsu hafa kynnst í starfi sínu en eitt atvik er honum ofar í huga en önnur þegar hann lýsir hlutdrægninni. Rannsókn Pearsons lávarðar á vinnubrögðum BBC leiddi í ljós að stjórnmálamenn andstæðir ESB fengju mun minni útsendingartíma en þeir sem studdu sambandið. Liddle segist hafa nefnt þessar tölur við háttsettan ritstjórnarfulltrúa í BBC. Sá yppti öxlum og sagði: „Það sem þú verður að skilja, Rod, er að þetta fólk er brjálað.“

Liddle bætir við: „Þetta kom mér í uppnám þá, en ég er ekki viss af hverju. Í stofnun þar sem allir hugsa eins, er varla furða að andstæð skoðun sé talin geðveikisleg. Ég þekki ekki einn einasta mann sem vinnur, eða vann, fyrir BBC sem greiddi atkvæði með úrsögn úr ESB. Ekki einn. Gefur það eitt ekki til kynna að eitthvað sé athugavert við ráðningar? Ættu stjórnendurnir ekki að telja að það þurfi að taka á því? Nei.“

Hann segir að BBC glími við tvö meginvandamál. Í fyrsta lagi sé starfslið þess nánast með einsleitt viðhorf. Það sé þess vegna ófært um að sjá að heimsmynd þess sé pólitísk. Þeir líta frekar á sig sem málsvara siðmenningar og velsæmis og aðrir séu óalandi og óferjandi. Vegna seinni vandans, sem sé mikilvægari, hafi úttektarskýrslunum verið lekið. Hann birtist á þann veg að stjórnendur BBC séu orðnir ónæmir fyrir allri gagnrýni og hundsi hana einfaldlega. Þeir fari í skotgrafir og haldi áfram að gera nákvæmlega það sama og áður, afskrifi allar athugasemdir sem illgirni og endurtaki möntruna: við erum ekki hlutdrægir.

Liddle lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Aftur og aftur hefur stjórnendum stofnunarinnar verið bent á æpandi hlutdrægnina innan BBC, eins og hún birtist í útsendingum. Og í hvert einasta skipti hafa þeir yppt öxlum og ekkert gert, alveg eins og þeir gera núna, jafnvel á meðan lögfræðingar Trumps eru önnum kafnir við að smíða milljarða dollara skaðabótakröfu á hendur þeim. Í afneitun drattast þeir hoknir í átt til útrýmingar, enn fullvissir um að allt sem þeir gera sé í góðu lagi og að allir aðrir hafi rangt fyrir sér.“

Það þarf engan að undra að þessar lýsingar á vandræðum breska ríkisútvarpsins veki umræður um ríkisútvarp og stöðu þess hér á landi. Mörgum öðrum en mér, sem hef skrifað um og varað við hlutdrægni ríkisútvarpsins árum saman, hlýtur að finnast eins og í London hafi verið varpað birtu á kunnuglega starfshætti sem þola ekki dagsins ljós og eitra allt andrúmsloft í samfélaginu.