17.7.2019 10:05

Frá Húsavík til tunglsins

Að koma á fót Könnunarsafninu á Húsavík er merkilegt og lofsvert, stækkar Ísland, tengir tunglinu og stórafrekum mannsins.

Þegar bandaríska sendiráðið efndi til þjóðhátíðarveislu undir lok júní vakti athygli að ræður fulltrúa sendiráðsins snerust að verulegu leyti um hvernig tekist hefði á Húsavík að koma á fót safni til að minna á bandarísku tunglfarana sem komu hingað til æfinga fyrir rúmum 50 árum.

Könnunarsafnið á Húsavík er helgað sögu landkönnunar mannsins, frá upphafi könnunar til geimferða okkar tíma. Í aðal sýningarrými safnsins er fjallað um þjálfun Apollo geimfaranna fyrir mannaðar ferðir NASA til tunglsins, en tveir hópar sóttu Ísland heim árin 1965 og 1967. Þá eru sagðar sögur víkinga og pólfara í safninu. Utan við safnið er fallegt minnismerki um æfingar geimfaranna sem synir og barnabörn Neils Armstrongs afhjúpuðu sumarið 2015.

_107563830_buzz-aldrin-poses-next-to-flagÁ tunglinu 20. júlí 1969.

Bandarísku diplómatarnir fóru ekki í launkofa með þá skoðun að framtakið að baki safninu væri ekki aðeins lyftistöng í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna heldur einnig merkilegt framlag til að halda á loft afreki þjóðar sinnar.

Nú er þess minnst að 50 ár eru liðin frá ferð Apollo 11 til tunglsins, þegar Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu þar niður fæti fyrstir manna. Það var 20. júlí 1969.

Talið er að um 650 milljónir manna hafi horft á það beint í sjónvarpi þegar Neil Armstrong steig fyrstur manna á tunglið. Atvikið er ógleymanlegt öllum sem þá voru komnir til vits og ára. Eitt sögulegasta andartak mannkynssögunnar enda er þess getið á þann hátt víða um heim um þessar mundir.

Hvað sem líður margvíslegum sönnunum um að Armstrong var á tunglinu eru þeir til sem trúa því ekki. Efasemdarmennirnir segja að þetta hafi allt verið ein stór samsæris blekking á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA. Sögusagnirnar lifa þótt þær hafi margsinnis verið hraktar með rökum.

Örlygur Hnefill Örlygsson og fjölskylda hans lögðu grunn að Könnunarsafninu á Húsavík. Í tilefni af 50 ára afmæli fyrstu tunglferðar mannsins frumsýnir Örlygur Hnefill nýja heimildarmynd, Af jörðu ertu kominn, að kvöldi 20. júlí í ríkissjónvarpinu og í Bíó Paradís. Í samtali við Morgunblaðið í dag (17. júlí) segir Örlygur Hnefill:

„Eftir að hafa lifað og hrærst í geimferðasögunni síðustu ár og kynnst nokkrum af þeim mönnum sem fóru til tunglsins á sínum tíma geri ég mér sífellt betur ljóst hve stórt hlutverk Ísland hafði í þessu ævintýri.... Ísland stendur mjög nærri tunglförunum og er þeim kært, enda hafa þeir verið mjög fúsir til frásagna ... Á sama hátt hafa margir Íslendingar sagt mér hve stórkostlegt þeim þótti að fylgjast með fréttum af þessu; afreki sem átti rætur sínar á Íslandi og því er vert að halda til haga.“

Réttmæti þessara orða Örlygs Hnefils birtust í fyrrnefndum ræðum bandarísku stjórnarerindrekanna. Koma geimfaranna hingað er hluti Íslandssögunnar. Að koma á fót Könnunarsafninu á Húsavík er merkilegt og lofsvert, stækkar Ísland, tengir tunglinu og stórafrekum mannsins.