13.5.2023 11:42

Frá friðlýsingu til skjólgarða

Í orðabókinni er þessi skýring gefin þegar spurt er um orðið skjólgarður: veggur eða garður til að skapa skjól gegn sjógangi, veðri og vindum. Nú hafa vinstrisinnar ákveðið nýja merkingu orðsins: flóttamannabúðir.

Orðið friðlýstur hafa vinstrisinnar notað til að einkenna þá stefnu sína að þeir vilji ekki kjarnorkuvopn nærri sér eða nálægt Íslandi eða jafnvel ekki heldur kjarnorkuknúin skip eins og kafbáta.

Í 10. gr. þjóðaröryggisstefnunnar eru Ísland og íslensk landhelgi friðlýst „fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu“.

Við vitum nú að í friðlýsingu felst ekki fyrirstaða við að kjarnorkuknúnir kafbátar fái þjónustu innan íslenskrar landhelgi, skipt sé um áhafnir þeirra eða þeim færður kostur. Breyting í þá veru varð fyrst fyrir fáeinum vikum með vísan til stríðsins í Úkraínu og fjölgunar ferða rússneskra kafbáta um GIUK-hliðið og Norður-Atlantshaf.

Nú þegar tæpir 15 mánuðir eru liðnir frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu efast enginn um að áhrifa stríðsins gætir umhverfis Ísland og á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu. Orð eins og friðlýsing breytir engu um það eða gamlar yfirlýsingar um að ekkert þurfi að gera í öryggismálum hér eða á N-Atlantshafi vegna stríðsins.

1414300Morgunblaðið birtir þessa mynd til að lýsa hvernig skjólgarðarnir nýju verða (mynd: mbl.is/sisi).

Í október 2022 urðu tilfinningaríkar umræður á þingi, í ríkisútvarpinu og á samfélagssíðum þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður, formaður allsherjar- og menntamálanefndar alþingis, kölluðu eftir því að flóttafólk hér á landi fengi að dvelja saman á ákveðnu svæði fyrstu vikur þeirra eða mánuði á Íslandi.

„Sumir kynnu að kalla þetta flóttamannabúðir en þetta eru búsetuúrræði þar sem líka er verið að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, félagsráðgjöf, það er leikskóli og það er skóli og það er haldið utan um þetta fólk,“ sagði Bryndís.

Vinstrisinnar fengu áfall af hneykslun yfir því að einhverjum skyldi koma eitthvað í þessa veru til hugar og gott ef talsmaður Pírata í útlendingamálum, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, taldi ekki hættu á að hér væri stefnt að einhverju sem líkja mætti við illa meðferð á dýrum. Auk hennar náðu þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar vart áttum vegna hneykslunar og þingmenn Vinstri grænna (VG) létu sitt ekki eftir liggja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra og varaformaður VG, ritaði 12. apríl 2023 bréf til Reykjavíkurborgar með ósk um að hafinn yrði undirbúningur að því að reisa skjólgarða (einingabyggðir) fyrir hælisleitendur líkt og önnur ríki Evrópu hefðu gert. Borgarráð þar sem Samfylking, Píratar og Viðreisn mynda meirihluta með Framsóknarflokknum samþykkti að ganga til viðræðna við ráðherrann um skjólgarðana og er nú leitað að lóðum fyrir þá.

Í orðabókinni er þessi skýring gefin þegar spurt er um orðið skjólgarður: veggur eða garður til að skapa skjól gegn sjógangi, veðri og vindum. Nú hafa vinstrisinnar ákveðið nýja merkingu orðsins: flóttamannabúðir. Dugi þessi nýja merking skjólgarða til að samþykkt sé raunsærri stefna í málefnum hælisleitenda má segja að það sé útgjaldalítið en hræsnisfullt er að stunda orðaleiki í stórmálum og láta áfram eins og maður sé friðsamari eða betri en þeir sem hræðast ekki að lýsa hlutunum eins og þeir eru.