3.7.2023 9:01

Frá Djúpuvík til Laugarbakka

Að morgni sunnudags ókum við af stað frá Djúpuvík sem leið lá til Hótels Laugarbakka í Miðfirði. Þetta eru um 235 km eftir vegi sem ekki er alls staðar greiðfarinn.

Þegar komið var til Hólmavíkur var leirinn á bílnum meiri en nokkru sinni fyrr en þar var aðstaða til að skola mestu af honum. Leiðin frá Hólmavík, Innstrandarvegur, er 105 km langur stofnvegur að þjóðvegi 1. Um 66 km hans eru lagðir bundnu slitlagi.

Strandavegur fyrir norðan Hólmavík og Innstrandarvegur (nr. 68) eru dæmi um vegi sem eru á hröðu undanhaldi og enginn sér eftir að víki fyrir betri vegum. Af þeim er þó viss eftirsjá vegna legu þeirra á milli fjalls og fjöru og vegna mikillar snertingar vegfarandans við náttúruöflin.

Við Innstrandarveg, skammt fyrir sunnan Hólmavík og vegamótin við Djúpveg (nr. 61) er Sauðfjársetrið í Sævangi. Fastasýning setursins ber heitið Sauðfé og sveitafólk á Ströndum. Þar er sauðfjárbúskap lýst frá öllum hliðum. Meðal þátta sem sýningin fjallar um eru t. d. sauðburður, heyskapur, jarðvinnsla, túnrækt, sauðfjársjúkdómar, mörk og eyrnamerki, afurðir, sláturtíð, smalamennska, réttir, ullarvinnsla, fjárhús, hættur sem steðja að sauðkindinni og margt fleira.

Þá var opnuð þar sýning um förufólk og flakkara árið 2021 og í fyrra um ísbirni. Nú í sumar er í safninu farandsýning, upprunnin á Sauðárkróki, um skagfirsku skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.

Hér verða myndir látnar tala eins og áður.

IMG_7537Síldarbræðslan á Djúpuvík var stærsta steypta húsið á Íslandi á sínum tíma, hún var starfrækt frá 1935 til 1944.

IMG_7540Skipsskrokkur í flæðarmálinu fyrir framan gömlu síldarbræðsluna á Djúpuvík.

IMG_7543Á heimleið frá landsmóti  íslenskra bifhjólamanna í Trékyllisvík.

IMG_7547Crepes-staður í Hólmavík. Góður hádegisverður.

IMG_7552Ísbirnir eru nýir sýningargripir í Sauðfjársetrinu  á Sævangi við Steingrímsfjörð..

IMG_7556Farandsýning um Guðrúnu frá Lundi er í Sauðfjársetrinu.

IMG_7565_1688321766657Kynningarspjald hátíðarinnar Borðstokk 1. júlíí 2023 á Borðeyri.

IMG_7560Borðeyri við Hrútafjörð.