15.10.2017 10:35

Frá Austurríki til kosninganna 28. október

Almannatenglar hafa greinilega ráðlagt Katrínu og VG að slá úr og í málefnalega til að „stuða“ ekki þá sem lýsa yfir stuðningi við flokkinn í skoðanakönnunum án þess að vita til hlítar fyrir hvað flokkurinn stendur í raun í skattamálum eða öðrum stórum málaflokkum eins og ESB-málinu.

Gengið verður til þingkosninga í Austurríki í dag. Þar hefur setið ríkisstjórn „stóru flokkanna“, það er Jafnaðarmanna (SPÖ) og Austurríska þjóðarflokksins (ÖVP) sem er mið-hægri flokkur. Þriðji flokkurinn sem er í fremstu röð austurrískra stjórnmála er Frelsisflokkurinn (FPÖ), hann er til hægri við ÖVP.

Líklegast er talið að borgaraflokkarnir tveir, ÖVP og FPÖ, myndi ríkisstjórn að loknum kosningum og Jafnaðarmenn verði þriðji stærsti flokkurinn. Gangi þetta eftir yrði það enn ein sönnun þess að Jafnaðarmenn og vinstrisinnar eigi almennt undir högg að sækja í Evrópu. Þeir hafa farið halloka í kosningum í Frakklandi, Hollandi, Noregi og Þýskalandi svo að vísað sé til þingkosninga á þessu ári.

Útlendingamál og það sem hér er kallað nýfrjálshyggja hafa sett svip sinn á málefnalegan þátt kosningabaráttunnar í Austurríki. Borgaraflokkarnir eru í meginatriðum samstiga þótt stefna FPÖ sé í mörgu tilliti róttækari en ÖVP. Flokkarnir vilja minnka ríkisrekstur og lækka skatta til að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Þá vilja þeir takmarka aðstreymi farand- og flóttafólks til Austurríkis og leggja rækt við austurríska menningu og sérkenni.

Kosningaauglýsingar í Austurríki: Nú eða aldrei! segir ÖVP flokkur Sebastians Kurz, Breytingar af ábyrgð segir Jafnaðarmannaflokkurinn SPÖ, Christians Kerns kanslara.

Hér hefur oft verið bent á að umræður á íslenskum stjórnmálavettvangi og átakamál eru nokkuð á skjön við það sem gengur og gerist í ríkjum Evrópu sem gjarnan eru notuð til samanburðar. Íslenskir stjórnmálamenn kveða til dæmis ekki næstum því eins fast að orði um nauðsyn aðhaldssamrar útlendingastefnu og aðhalds í umsvifum ríkisins og gert er í öðrum löndum.

Stundum er engu líkara en íslenskir stjórnmálamenn forðist málefnaleg átök. Þar nægir til dæmis að nefna núna hvernig Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna (VG), fer undan í flæmingi þegar leitað er skýringa á skattastefnu VG. Katrín lætur nægja að tala um„hátekjuskatt á segjum árstekjur yfir 25 milljónir“ og „auðlegðarskatt á þá sem eiga meira en segjum sem nemur einu einbýlishúsi“. Þetta er laust í reipunum af ásettu ráði en markar þó stefnu.

Almannatenglar hafa greinilega ráðlagt Katrínu og VG að slá úr og í málefnalega til að „stuða“ ekki þá sem lýsa yfir stuðningi við flokkinn í skoðanakönnunum án þess að vita til hlítar fyrir hvað flokkurinn stendur í raun í skattamálum eða öðrum stórum málaflokkum eins og ESB-málinu.

Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus í sagnfræði, skrifaði á FB-síðu sína miðvikudaginn 11. október:

„Ég er ekki fótfrár maður en fór samt í nokkrar fjölfarnar verslanir í dag. Þar hitti ég tvo gamalgróna félaga í VG, hvorn í sínu lagi, báða fulltrúa á landsfundi VG nýlega. Báðir voru óttaslegnir mér til furðu. Það gæti komið vinstri stjórn og það væri ömurlegt. Ástæðan: Slík stjórn gæti hafið aðildarviðræður við ESB. Vinstri stjórn gæti sett sjálfstæði landsins í hættu.

Ég veit að þessi afstaða er í minnihluta í VG en hún er samt til staðar. Fær hún eitthvað að ráða?“

Gísli er í Samfylkingunni og gerir sér líklega vonir um að ESB-málið vakni að nýju myndi VG og Samfylking vinstri stjórn að loknum kosningum.

Íslenskir kjósendur ættu að fylgjast með því sem gerist í Austurríki í dag og huga að úrslitum í öðrum Evrópuríkjum og ekki kjósa yfir sig vinstri stjórn laugardaginn 28. október, stjórn sem opnar landamæri, hækkar skatta og stofnar til hatrammra deilna á heimavelli um aðild að ESB.