7.4.2023 12:05

Föstudagurinn langi

Árið 2015 var fössari orð ársins að mati lesenda ruv.is. Þá var í fyrsta skipti kosið um orð ársins á vegum RÚV.

Áskrifendur að erlendum vefsíðum reka sig á að þar er víða brugðið á það ráð á föstudögum að birta skondnar fréttir eða frásagnir í léttum dúr undir skammstöfuninni: TGIF! Þegar að er gáð stendur hún fyrir orðin: Thank God it‘s Friday – Guði sé lof, það er föstudagur! Fagnað er að vinnuvikunni sé að ljúka og við taki tími til upplyftingar.

Árið 2015 var fössari orð ársins að mati lesenda ruv.is. Þá var í fyrsta skipti kosið um orð ársins á vegum RÚV en auk fössara var hægt að velja orðin deilihagkerfi, lundabúð, grænkeri og rafretta.

Í frásögn á ruv.is 6. janúar 2016 sagði: „Fössari er nýyrði, einkum notað af æskufólki, og er í grunninn stytting eða afbökun orðsins föstudagur. Í daglegu brúki merkir það þó fremur föstudagskvöld, eða byrjun helgarfrís. Eða samkoma eða hittingur á föstudagskvöldi þar sem fólk hittist og fær sér gjarnan öllara.“

IMG_6696

Þetta er rifjað upp í dag, föstudaginn langa, til að minna á að krossfestingin markaði ekki endalok heldur upphaf. Páll postuli boðaði að Jesús hefði fórnað lífi sínu og friðþægt þannig fyrir syndir mannanna. Upprisa hans væri til marks um sigur á dauðanum, ekki einungis sigur Krists heldur alls mannkyns.

Í boðskap Páls felst þungamiðja kristinnar trúar.