29.6.2017 9:43

Fortíðarrödd gegn NATO

Einn hópur fólks er ósammála þjóðaröryggisstefnunni. Hann er fastur í gömlum ágreiningi um þátttöku Íslendinga í samstarfi vestrænna þjóða um varnir og öryggismál.

Í mörg ár var unnið að mótun sameiginlegrar stefnu í þjóðaröryggismálum Íslendinga og að lokum náðist víðtæk samstaða um hana þar sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru hornsteinar. 

Einn hópur fólks er ósammála þessari stefnu. Hann er fastur í gömlum ágreiningi um þátttöku Íslendinga í samstarfi vestrænna þjóða um varnir og öryggismál. Hópurinn kennir sig við andstöðu við hernað og gefur með því til kynna að hér séu einhverjir sem ekki eru andvígir hernaði eða stríði. Stefán Pálsson sagnfræðingur hefur löngum haldið málstað þessa hóps fram á opinberum vettvangi. Hann gerir það enn á ný fimmtudaginn 29. júní Fréttablaðinu.

Stefáni vex í augum að efnt er til kafbátaleitaræfinga undir merkjum NATO við strendur Íslands um þessar mundir. Hann segir: „Staðreyndin er sú að Atlantshafsbandalagið hefur engu jákvæðu hlutverki að gegna á sviði öryggismála í heiminum. Þvert á móti má færa rök fyrir því að það sé það fyrirbæri í veröldinni sem helst grafi undan öryggi almennings.“

Skoðun Stefáns er reist á þeirri hugmyndafræði að viðbúnaður gegn hættu kalli á hættuna. Sama hugmyndafræði ræður afstöðu þeirra sem telja að lögregla eigi ekki að grípa til varúðarráðstafana af því að það auki hörku meðal glæpamanna. 

Afstaða Stefáns Pálssonar er enn eitt merkið um klofninginn í röðum vinstri-grænna (VG), sjónarmið hans enduróma innan þingflokks VG þótt flokkurinn hafi staðið að ríkisstjórn sem studdi árásir undir merkjum NATO á Líbíu á sínum tíma. 

Stefán heldur því fram að NATO hafi „stuðlað að því að endurvekja kjarnorkuvopnakapphlaupið“. Þessi skoðun stenst ekki. Hún stangast á við kjarorkuvopnaglamrið frá Moskvu og hótanir sendiherra Rússa í garð Norðurlandaþjóða taki þær þátt í eldflaugavörnum NATO sem eru eitur í beinum Moskvumanna sem treysta nú meira á kjarnorkuvopn en áður vegna vanmáttar á sviði venjulegra vopna.