30.7.2022 10:21

Forsíðufrétt um Finnafjörð

Af þessum orðum má ráða að gripið hafi verið til þess að flytja ranga forsíðufrétt í blaðinu til „auka umræðu um varnarmál“ í landinu.

Í Fréttablaðinu í gær (föstudaginn 29. júlí) birtist forsíðufrétt eftir Björn Þorláksson blaðamann um að utanríkisráðuneytið hefði „farið fram á að langur viðlegukantur fyrir NATO verði reistur norðan megin í Finnafirði í Langanesbyggð. Kanturinn yrði við bæinn Gunnólfsvík.“

Tilgangur aukinna umsvifa yrðu meðal annars að birgja upp skip á vegum NATO og hvíla áhafnir. Til greina kæmi að aðstaða yrði fyrir birgðaskip frá NATO. Rætt hefði verið um að Landhelgisgæslan fengi aðstöðu. Ríkið væri fyrir með svæði á leigu við Gunnólfsvík.

Blaðið hefur eftir nafnlausum heimildarmönnum að „að engin skrifleg gögn séu til um þessar þreifingar. Óformlegt erindi hafi þó borist sveitarstjórn Langanesbyggðar frá utanríkisráðuneytinu. Mál séu í vinnslu bak við tjöldin“.

Finnafjordur-myndKortið er fengið af vefsíðu Langanesbyggðar og sýnir hugmynd um höfn í Finnafirði.

Í öðrum fjölmiðlum birtust fréttir um þetta reistar á forsíðufréttinni. Síðar þennan sama dag lá þó fyrir bæði frá utanríkisráðuneytinu og á vefsíðu Langanesbyggðar að fréttin var úr lausu lofti gripin, á vefsíðu byggðarinnar stóð:

„Vegna fréttaflutnings í fjölmiðlum í morgun vill Langanesbyggð koma því á framfæri að sveitarfélaginu hafa ekki borist nein erindi frá utanríkisráðuneytinu eða NATO um uppbyggingu hafnarmannvirkja eða viðlegukants í Finnafirði.“

Í Fréttablaðinu í dag (30. júlí) hefst frétt um þetta sama mál á þessum orðum:

„Erfitt er að auka umræðu um varnarmál Íslendinga þar sem leyndarhjúpur liggur alltaf yfir málaflokknum, að sögn þingmanns. Utanríkisráðuneytið segir heimildir Fréttablaðsins um viðlegukant í Finnafirði á villigötum.“

Af þessum orðum má ráða að gripið hafi verið til þess að flytja ranga forsíðufrétt í blaðinu til „auka umræðu um varnarmál“ í landinu, ekki er viðurkennt að um upplýsingafölsun sé að ræða í því skyni heldur sagt að „heimildir“ blaðsins séu á „villigötum“.

Við svo búið birtir blaðamaðurinn viðtal við Andrés Inga Jónsson, þingmann Pírata, sem segir fréttina vekja spurningar um frumvarp um „endurskilgreiningu á mörkum öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall“, það er við Finnafjörð. Frumvarpið sé þó ekki lengur á þingmálaskrá en samt er vitnað í samsæriskennda ræðu Andrésar Inga um það á þingi árið 2020 (!).

Eins og jafnan áður er Andrési Inga um megn að ræða efni málsins. Að hætti Pírata heldur hann sig við formið. Þetta er jafnframt háttur hans í þingsalnum. Þar flytur hann stundum margar ræður sama daginn um fundarstjórn forseta og kvartar undan að mál séu ekki lögð fyrir á þann veg sem honum líkar.

Sé það í raun tilgangur Fréttablaðsins að kveikja umræður um íslensk varnarmál með röngum forsíðufréttum ætti blaðið að ræða við aðra en Andrés Inga um framhaldið. Hann lokar einfaldlega augunum fyrir stöðu öryggismála í Evrópu vegna stríðsreksturs Rússa í Úkraínu.

Í ljósi þróunar öryggismála á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum er eðlilegt að velta fyrir sér nauðsyn varnarviðbúnaðar á norðaustur horni landsins hvort heldur fyrir flugher eða flota. Þetta eru brýnni umræður núna en á níunda áratugnum. Óvissan um skilin milli friðar og ófriðar er meiri núna en þá.