22.5.2020 9:24

Forseti ASÍ gegn Icelandair

Við þessar aðstæður rofnar samstaðan og stofnað er til ófriðar og þar keppast þær um að vera í fararbroddi Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), og Sólveig Anna Jónsdóttir, varaforseti ASÍ.

Mikilli samstöðu þjóðarinnar var fagnað þegar gripið var til varna gegn COVID-19-faraldrinum hér á landi. Efnt var til daglegra blaðamannafunda til að árétta nauðsyn samstöðunnar. Farið var að tilmælum sóttvarnalæknis og annarra yfirvalda. Öllum er nú ljóst að þessar aðgerðir skiluðu góðum árangri.

Nú þegar daglegu blaðamannafundunum er lokið og þjóðin fikrar sig skref fyrir skref út sóttvarnahöftunum er annars vegar varað við að skorti á mótefni meðal landsmanna gegn nýrri COVID-19-bylgju og hins vegar hugað leiðum til að efnahags- og atvinnulífið dafni að nýju, ekki megi endalaust veðja á ríkissjóð. Þanþol hans er ekki endalaust.

1206197Við þessar aðstæður rofnar samstaðan og stofnað er til ófriðar og þar keppast þær um að vera í fararbroddi Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), og Sólveig Anna Jónsdóttir, varaforseti ASÍ. Ekki hafði fyrr verið tilkynnt að leikskólar og grunnskólar gætu starfað á venjulegan hátt en Sólveig Anna stofnaði til verkfalla í nokkrum sveitarfélögum til að framlengja lokun skólanna. Nú þegar lagst er á árarnar til að endurfjármagna Icelandair skipar Drífa Snædal sér fremst í flokk þeirra sem vilja spilla fyrir áformum stjórnenda félagsins.

Þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vekur réttilega máls á nauðsyn þess að verkalýðshreyfingin sýni samstöðu með öðrum á þessum örlagatímum kýs Drífa Snædal að snúa út úr orðum hans eins og lesa mátti á ruv.is fimmtudaginn 21. maí:

„Það eru náttúrulega ótrúlegar yfirlýsingar hjá Seðlabankastjóra að ætlast til þess að launafólk taki á sig meira högg en nú þegar er orðið. Og hann verður eiginlega bara að fara að svara fyrir þetta, hvað hann eigi við með þessu. Er seðlabankastjóri í alvöru að tala um að launafólk eigi að taka á sig launalækkanir og réttindamissi í þessu árferði, meira en orðið er?"

Í ríkisútvarpinu að morgni föstudags 22. maí taldi Drífa „brjóstvörn“ ASÍ felast í stuðningi við furðulegt sjónarmið formanns Flugfreyjufélags Íslands um að forstjóri Icelandair mætti ekki milliliðalaust senda starfsmönnum félagsins bréf og upplýsa hvað félagið vildi bjóða þeim með nýjum samningi. Eins og Sólveig Anna lagðist á grunnskóla þegar þeir voru opnaðir ætlar Drífa nú að leggjast á Icelandair með aðstoð forystu flugfreyja.

Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, segir í leiðara þess í morgun (22. maí):

„Samninganefnd Flugfreyjufélagsins hefur verið stutt áfram af forystufólki verkalýðshreyfingarinnar sem nýtir jafnan hvert tækifæri fyrir skemmdarverkastarfsemi. Forseti ASÍ og formaður VR [Ragnar Þór Ingólfsson], sem hafa hótað að beita sér gegn því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í Icelandair ef félagið semur við flugliða utan Flugfreyjufélagsins, segja ekki sjóðunum fyrir verkum. Ummælin eru skýrt merki um skuggastjórnun og hljóta að verða til þess að Fjármálaeftirlitið taki málið til skoðunar.“

Að saka forstjóra Icelandair um lögbrot þegar hann sendir starfsmönnum sínum bréf á örlagastund en hóta sjálf misbeitingu fjármálavalds lífeyrissjóðanna er til marks um ómerkilegan tvískinnung og á ekkert skylt við vilja til að bæta kjör láglaunahópa.