24.6.2020 9:28

Forsetakosningar

Stjórnmálamenn eða forsetar hér á landi orða óskir um heill þjóðarinnar ekki lengur á þennan veg, boðskapurinn á þó jafnmikið erindi til þjóðarinnar nú og fyrir 76 árum.

Forsetakosningar verða laugardaginn 27. júní. Tveir takast á um embættið: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður. Kannanir sýna að Guðni Th. sigri auðveldlega. Áhyggjur stuðningsmanna hans sýnast einkum snúast um að kjósendur fari ekki á kjörstað.

Í forsetakosningabaráttu eiga menn að láta í ljós ást á landi og þjóð. Það er í anda yfirlýsinga og fyrirheita sem gefin voru á Þingvöllum 17. júní 1944 við stofnun lýðveldisins og fyrsta kjör forseta Íslands.

Sveinn Björnsson lauk fyrsta ávarpi sínu sem forseti Íslands með þessum orðum: „Nú á þessum fornhelga stað og á þessari hátíðarstundu bið ég þann sama eilífa Guð, sem hélt verndarhendi yfir íslenzku þjóðinni, að halda sömu verndarhendi sinni yfir Íslandi og þjóð þess á þeim árum, sem vér eigum nú framundan.“

Stjórnmálamenn eða forsetar hér á landi orða óskir um heill þjóðarinnar ekki lengur á þennan veg, boðskapurinn á þó jafnmikið erindi til þjóðarinnar nú og fyrir 76 árum.

Er athugunarefni hvað veldur því að opinber orðræða hefur afhelgast hér. Orð Geirs H. Haarde forsætisráðherra „Guð blessi Ísland“ urðu skotspónn margra. Jafnframt gagnrýna álitsgjafar t.d. úr röðum fræðimanna stjórnmálamenn fyrir að höfða til föðurlandsástar og þjóðmenningar í ræðum sínum.

200px-Coat_of_arms_of_the_President_of_Iceland.svgGuðni Th. Jóhannesson var fulltrúi háskólasamfélagsins þegar hann bauð sig fram fyrir fjórum árum auk þess sem áhorfendur ríkissjónvarpsins þekktu hann sem álitsgjafa. Hann nýtur enn stuðnings þeirra sem nálgast þjóðfélagsmál úr þessari átt. Þeir setja sig á háan sess telji þeir að vegið sé að einhverjum úr hópnum eins og birtist glöggt á dögunum þegar fjármálaráðuneytið sætti sig ekki við að „fræðasamfélagið“ ákvæði fyrir þess hönd hver yrði ritstjóri lítt þekkts norræns hagfræðingatímarits sem ráðuneytið tekur þátt í að kosta. Félög prófessora ályktuðu til að gæta hagsmuna þessa lokaða hóps.

Á undanförnum fjórum árum hefur Guðni Th. lagt sig fram um að skírskota til þjóðarinnar allrar eins og honum er skylt sem húsbónda á Bessastöðum. Kannanir sýna að honum hefur tekist þetta vel og í viðtali við vinstri-vefsíðuna Stundina í tilefni af kosningunum nú segir hann: „Ég hef einsett mér að láta embættið ekki stíga mér til höfuðs.“

Kosningaboðskapur Guðmundar Franklíns er til þess eins fallinn að fæla menn enn frekar frá því að ræða sjálfstæði og stöðu þjóðarinnar í þeim anda sem gert var við stofnun lýðveldisins. Frambjóðandinn og stuðningsmenn hans hafa einstakt lag á að kalla fram andstöðu við mikilvæg grundvallarsjónarmið sem öllum sjálfstæðum þjóðum ber að hafa í heiðri. Framboðið skaðar góðan málstað og er skiljanlegt að frambjóðandinn njóti lítils stuðnings.