1.4.2024 10:27

Forsetaefni Vigdísar Bjarna.

Í gær birti Vigdís Bjarnadóttir, fyrrv. deildarstjóri á skrifstofu forseta Íslands, færslu á Facebook-síðu sinni til að svara á einum stað þeim sem spyrja hana: Hvern viltu fá sem forseta?

Nú er tekið til við að rýna í ný lén í netheimum til að átta sig á hugsanlegum forsetaframbjóðendum. Visir.is skýrir frá því í dag (1. apríl) að svo virðist sem „bæði Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem báðar hafa verið orðaðar við embætti forseta, hafi stofnað lén eftir eigin nafni“.

327559969_911972586476576_3187078915575664380_nVigdís Bjarnadóttir

Í gær birti Vigdís Bjarnadóttir, fyrrv. deildarstjóri á skrifstofu forseta Íslands, færslu á Facebook-sí ðu sinni til að svara á einum stað þeim sem spyrja hana: Hvern viltu fá sem forseta? og bæta við: „Þú þekkir þetta embætti svo vel, veist hvað þarf til“.

Vigdís starfaði í 39 ár á forsetaskrifstofunni. Hér er svar hennar við spurningunni umskrifað í 20 atriði sem Vigdís telur að kjósendur eigi að hafa í huga. Kostir frambjóðandans eru að:

1. Vera afar vel menntaður, heiðarlegur og heilsteyptur einstaklingur, sem kemur vel fyrir.

2. Hafa brennandi áhuga á landi, þjóð og sögu.

3. Þekkja samfélagið, innviði þess og samsetningu afar vel.

4. Hafa góða þekkingu á íslenskri pólitík og vera vel að sér í alþjóðapólitík.

5. Tala lýtalausa ensku og eitt Norðurlandamál, fleiri lýtalaus tungumál eru kostur.

6. Geta rætt um menn og málefni á akademískum grunni og samið og flutt ræður og fyrirlestra bæði á íslensku og ensku.

7. Geta flutt óundirbúnar ræður fyrirvaralaust á ensku um alls konar málefni.

8. Hafa gott og sterkt bakland, það blæs oft á Bessastöðum.

9. Hafa kjark til að taka mikilvægar og vel ígrundaðar ákvarðanir, jafnvel þótt þær séu ekki vinsælar.

10. Hafa tengsl inn í stjórnmálaflokkana, vita alltaf hvernig vindurinn blæs.

11. Vera í góðu sambandi við og þekkja fólk sem hann kallar til skrafs og ráðagerða, þegar hann undirbýr ræður og ávörp, einnig þegar hann undirbýr opinberar heimsóknir til annarra landa eða heimsóknir innan lands.

12. Þekkja samskipti við aðrar þjóðir, bæði í pólitík, viðskiptum, bókmenntum og listum og á akademískum grunni.

13. Vera góður stjórnandi.

14 Kunna/læra prótokollinn.

15. Vera kurteis í samskiptum við fólk og geta talað við alla.

16. Hafa vit á mat og vínum.

17. Hafa staðgóða þekkingu á öðrum menningarsamfélögum.

18. Klæða sig af vandvirkni og vera óaðfinnanlegur.

19. Vekja stolt þjóðarinnar.

20. Góður maki er mikill kostur.

Séu þessar skynsamlegu leiðbeiningar hafðar að leiðarljósi auðveldar það valið úr þeim stóra hópi frambjóðenda sem nú er nefndur til leiks.