14.5.2022 14:50

Formennsku í Snorrastofu lýkur

Ákveðin tímamót urðu hjá mér fimmtudaginn 12. maí með ákvörðun um að segja skilið við formennsku í Snorrastofu í Reykholti.

Ákveðin tímamót urðu hjá mér fimmtudaginn 12. maí með ákvörðun um að segja skilið við formennsku í Snorrastofu í Reykholti. Henni hef ég gegnt í umboði sóknarnefndar Reykholtssóknar undanfarin 10 ár. Í stjórnina settist ég árið 2006 í umboði Borgarbyggðar.

Kjörtímabil stjórnar Snorrastofu er sama og sveitarstjórna. Þess vegna er rétti tíminn núna til að taka ákvarðanir í þessu efni.

Ég er þakklátur sóknarnefndinni og sérstaklega Þorvaldi Jónssyni í Brekkukoti, formanni nefndarinnar, fyrir að fela mér formennskuna. Í stjórninni hef ég kynnst og starfað með góðu fólki. Tvo samstarfsmenn nefni ég sérstaklega Berg Þorgeirsson forstöðumann og sr. Geir Waage, sóknarprest í Reykholti frá 1978 til 2020, í 42 ár.

Stjornin_Snorrastofu_06-1-of-1-63-Myndin er tekin í Reykholti á lokafundi þeirrar stjórnar Snorrastofu sem lýkur kjörtímabili sínu í dag 14. maí 2022.  Þar eru frá vinstri: Guðmundur Bjarnason, fltr. menningarmálaráðuneytis, Davíð Pétursson á Grund, fltr. Skorradalshrepps, Bj. Bj, formaður, Margrét Eggertsdóttir, tilnefnd af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Auður Hauksdóttir, fltr. Borgarbyggðar og Bergur Þorgeirsson forstöðumaður.

Þegar sóknin réðst í að reisa nýja kirkju í Reykholti var Snorrastofu ætlaður samastaður í hliðarhúsi við kirkjuna sjálfa. Fyrir utan sal, bókasafn og skrifstofu er fræðimannsíbúð í húsinu.

Í gamla skólahúsinu í Reykholti er einnig aðstaða fyrir fræðimenn og ráðstefnur undir handarjaðri Snorrastofu. Stjórnin hefur unnið að því undanfarin ár að fá allt skólahúsið undir starfsemi Snorrastofu svo að þar megi skapa aðstöðu til sýninga og þjónustu við mikinn fjölda ferðamanna sem leggur leið sína að Snorralaug, við austurenda skólahússins.

Líkur eru á að það markmið stjórnarinnar náist í samvinnu við ríkisvaldið eiganda skólahússins. Á sínum tíma voru varaeintök Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns flutt í þennan hluta skólahússins. Stendur vilji allra sem hlut eiga að máli til þess að skapa varaeintakasafninu nýja umgjörð vegna þrengsla í Reykholti. Er ástæða til að hvetja þá sem hafa forystu í Borgarbyggð á kjörtímabilinu sem hefst á morgun til ákveða sem fyrst framtíðarstað fyrir varaeintök og fleiri minjar í héraði sínu.

Ég átti hlut að því sem menntamálaráðherra fyrir aldarfjórðungi að leggja grunn að Snorrastofu og móta henni þann skipulagsramma sem dugað hefur vel síðan til að tryggja sess hennar sem rannsóknarseturs um allt sem varðar Snorra Sturluson og miðaldafræði honum tengd.

Við nútímamenn áttum okkur ekki til fulls á hve áhrif Snorra og þess sem til er skráð undir höfundarheiti hans eru gífurlega mikil á hugmyndaheim okkar Norðurálfubúa sem höfum í aldanna rás gegnt ráðandi hlutverki í framvindu vestrænnar menningar og þar með mótað öfluga strauma sem gætir um heim allan. Þessi áhrif aukast nú með nýrri tækni, til dæmis tölvuleikjum. Samhliða meiri útbreiðslu verður að treysta ræturnar og dýpka þekkinguna og þar gegnir Snorrastofa mikilvægu hlutverki.

Skilningur sveitarstjórna á gildi þess að leggja rækt við fornan menningararf sem tengist sögu þeirra vex eins og sjá má víða um land. Hér í Rangárþingi þar sem þetta er skráð hefur til dæmis myndast samstaða um samstarf kirkju og menningarstofnunar að Odda á Rangárvöllum. Þar er nú unnið að undirbúningi framkvæmda þar sem hugmyndir eru sóttar í smiðju Reykhyltinga.

Engin starfsemi af þessu tagi nær fram að ganga nema að frumkvæði heimamanna sem nýtur skilnings og stuðnings sveitarfélags og ríkisvalds. Allt starf af þessu tagi kallar á mikla vinnu, útsjónarsemi og trú á hugsjónina.