22.10.2024 10:45

Formannaföndur við framboð

Sé litið er á framboð til alþingis sem gluggaskreytingu flokksformanna er það óheillaþróun, andstæð gegnsæi og lýðræðislegum starfsháttum.

Það vakti athygli á dögunum að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra, tilkynnti að Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, tæki efsta sæti sitt á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, sjálfur myndi hann taka annað sætið. Í Morgunblaðinu 22. október segir Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, að uppstillingarnefndir muni ákveða lista og væntanlega kynna þá á kjördæmisþingum 26. október. Ráðunum virðist ætlað að blessa ákvörðun um lista.

Blaðamaður spyr hvort uppstillingarnefndirnar séu sjálfstæðar eða hvort forysta flokksins blandi sér í val á listann eins og Sigurður Ingi hafi þegar hann vék sæti fyrir Höllu Hrund. Helgi svarar á þann veg að mikill einhugur hafi ríkt um ákvörðun Sigurðar Inga.

„Aðdragandi að slíkri ákvörðun felur í sér mikið samráð og formaður nýtur 100% stuðnings og trausts í flokknum þar sem hann tekur hagsmuni heildarinnar fram yfir persónulega hagsmuni.“

Alþingi var formlega rofið og boðað til kosninga fimmtudaginn 17. október, degi síðar, 18. október, birtu Sigurður Ingi Jóhannsson og Halla Hrund tilkynningar á Facebook um að hún yrði í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi en Sigurður Ingi sagði þar:

„Ég hef því tekið ákvörðun um að leggja til við kjörstjórn Framsóknar í Suðurkjördæmi að Halla Hrund Logadóttir, starfandi orkumálastjóri, verði í fyrsta sæti á lista Framsóknar fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember. Sjálfur býð ég mig fram í annað sæti.“

Þarna kemur hvergi fram að um þetta hafi verið „mikið samráð“ enda aðdragandinn skammur og í honum lét Sigurður Ingi opinberlega í ljós efasemdir um að rjúfa bæri þing og efna til kosninga með skömmum fyrirvara. Hitt skal ekki dregið í efa að eftir á styðji framsóknarmenn þessa ákvörðun formanns síns um röðun á framboðslistann þótt hún hafi ekki enn verið formlega ákveðin.

Sigurður Ingi gaf fordæmi með því að tilkynna ákvörðun sína svo snemma og afdráttarlaust. Fordæmalausar aðstæður gæfu flokksformönnum meira svigrúm en ella til að ráðstafa sætum á framboðslista.

1438581Inga Sæland ákveður skýringarlaust að afmunstra Jakob Frímann (mynd;: mbl.is).

Enginn hefur nýtt sér þetta svigrúm á skýrari hátt en Inga Sæland, formaður, stofnandi og „eigandi“ Flokks fólksins. Hún ákvað að setja tvo þingmenn flokksins til hliðar: Tómas Tómasson í Tommaborgurum og Jakob Frímann Magnússon tónlistarmann.

Þegar Morgunblaðið spyr 22. október um Jakob Frímann, svarar Inga:

„Staðreyndin er bara einfaldlega sú að Jakob Frímann er ekki að leiða fyrir okkur í Norðaustur“ Er hægt að segja af hverju? var spurt og Inga Sæland svaraði: „Nei, nei. Það er bara þannig.“ Þarna ræður aðeins einn vilji, hvorki nefndir né ráð.

Sé litið er á framboð til alþingis sem gluggaskreytingu flokksformanna er það óheillaþróun, andstæð gegnsæi og lýðræðislegum starfsháttum.