27.6.2023 9:21

Forherðing í Íslandsbanka

Eftir allt sem á undan er gengið í íslensku banka- og fjármálakerfi er dapurlegt að hugarfarið sem birtist í þessum dæmum þrífist enn innan íslensks banka.

Forherðing er orð sem kemur í hugann þegar farið er yfir fréttir um hvernig starfsmenn Íslands banka stóðu að sölu 22,5% hlutabréfa í bankanum 22. mars 2022. Orðið lýsir því að vera forhertur, harður, óbilgjarn. Dæmi:

1. Íslandsbanki upplýsti ekki Bankasýslu ríkisins um að almennir fjárfestar stæðu að baki tilboðum eignarstýringar málsaðilum. Þau tilboð voru ekki lögð fram með sama hætti og tilboð viðskiptavina verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar. Bankasýslunni voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu. Níu viðskiptavinir sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar.

2. Íslandsbanki sagði að minnsta kosti níu almennum fjárfestum að lágmarksupphæð til þess að taka þátt í útboðinu væru 20 milljónir króna þegar um enga slíka skilmála var að ræða. Fjármálaeftirlitið telur að Íslandsbanki hafi beint útboðinu til almennra fjárfesta, þrátt fyrir að þeim stæði ekki til boða að taka þátt í viðskiptunum.

3. Starfsmaður bankans sótti um að teljast fagfjárfestir kl. 17:32 á útboðsdaginn og samþykkt af lögfræðideild kl. 18:21. Starfsmaðurinn óskaði eftir afstöðu regluvörslu um viðskipti hans í útboðinu. Regluvarsla svaraði því að viðskiptin væru óheimil þar sem einnar klukkustundar tímatakmörk starfsmanna sem störfuðu við útboðið voru liðin. Starfsmaðurinn svaraði póstinum kl. 18:21 og útskýrði að hann hefði rétt í þessu fengið flokkun sem fagfjárfestir. Það hefði ekki legið fyrir við afstöðu regluvörslunnar. Óskaði hann því eftir að umsóknin yrði endurskoðuð. Regluvarsla svaraði kl. 18:27, sex mínútum síðar, að umsóknin hefði verið tekin til endurskoðunar og honum veitt heimild til viðskiptanna. Tilboð starfsmannsins var skráð í tilboðsbókina kl. 18:31.

4. Hlutabréfakaup starfsmanna Íslandsbanka brutu í bága við reglur bankans. Heimiluð voru kaup starfsmanns þótt þau væru yfir hámarksupphæð. Regluvarsla gerði athugasemd. Starfsmaðurinn sagðist of upptekinn við sölu á hlutum í Íslandsbanka til að kynna sér reglurnar. Ábending starfsmanns regluvörsludeildarinnar var hunsuð og tilboð starfsmannsins skráð í innlendu tilboðsbókina.

Images-aeosaeHöfuðstöðvar Íslandsbanka (mynd: Íslandsbanki).

Eftir allt sem á undan er gengið í íslensku banka- og fjármálakerfi er dapurlegt að hugarfarið sem birtist í þessum dæmum þrífist enn innan íslensks banka. Með því er viðskiptavinum bankans og samfélaginu öllu ögrað. Fjármálaeftirlitið (FME) gekk hreint til verks. Bankastjórnin viðurkennir niðurstöður þess með því að greiða 1,2 milljarða í sekt.

Sporin hræða hins vegar og meira þarf til af hálfu stjórnenda bankans vilji þeir endurvekja traust á honum. Afhjúpun FME á sóðaskapnum dugar ekki. Það verður að gera hreint innan dyra í bankanum. Það verður að gerast í dagsbirtu svo að engu verði undan skotið og óháðir matsmenn verða að taka út hvernig að verkinu er staðið. Annað er óviðunandi.