5.5.2020 9:42

„Forgangsröðun ferðamáta“ í Geirsgötu

Lykilorðin í þessum texta eru „forgangsröðun ferðamáta“ í þeim felst að forgangsraðað er gegn einkabílnum og í þágu strætisvagna.

Nýjar byggingar milli Tryggvagötu og Geirsgötu hafa gjörbreytt ásýnd miðborgarinnar og á milli Geirsgötu og Hörpunnar rísa nú hótel, íbúðarhús og höfuðstöðvar Landsbankans. Svæðið verður óþekkjanlegt frá því sem áður var og vonandi glæðist það mannlífi. Hvort það gerist ræðst að verulegu leyti af því hvernig staðið er að aðkomu fólks að svæðinu. Liður í aðgerðunum er þó að loka öllum bílastæðum í Tryggvagötu sunnan við Tollstöðina.

Umræður um Laugaveginn og aðra hluta miðborgarinnar mótast af breyttu þjónustuhlutverki þessa hluta Reykjavíkur. Það hefur skýrst nú undanfarnar vikur. Þeir sem halda enn úti þjónustustarfsemi á þessum slóðum fá lítinn stuðning frá almenningi eða borgarbúum almennt vegna þess hve sjaldan þeir eiga erindi á þessar slóðir og láta sér þess vegna í léttu rúmi liggja hvað þarna gerist.

1205117Árni Sæberg á mbl.is tók þessa mynd af biðskýlinu umdeilda við Geirsgötu.

Nú beinist gagnrýni að því að gert er ráð fyrir að öll umferð á annarri akgrein Geirsgötu stöðvist að baki strætisvagns þar, ekki er gert ráð fyrir neinu útskoti við biðstöð strætisvagna þar. Þetta er til umræðu í Morgunblaðinu í dag (5. maí) og þar stendur:

„Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, segist ekki óttast óþarfa umferðartafir á Geirsgötu eftir tilkomu [strætisvagna]skýlisins. Tvær akreinar séu í hvora átt.

„Það þarf ekki að hafa áhyggjur af umferð þó strætó stoppi þarna í skamma stund. Þetta snýst um forgangsröðun ferðamáta, en norðanmegin við götuna er verið að leggja hjólastíg og við viljum hafa hann óslitinn,“ segir hún og bendir á að ekki sé æskilegt að fella stoppistöð inn að honum. „Það gæti sett óvarða vegfarendur í meiri hættu. Ekki má gleyma því að þetta er inni í miðbænum og þar viljum við ekki hafa hraðakstur og umferðarhávaða.““

Lykilorðin í þessum texta eru „forgangsröðun ferðamáta“ í þeim felst að forgangsraðað er gegn einkabílnum og í þágu strætisvagna auk þess sem ekki er unnt að gera útskot og setja biðskýli norðar en gert er vegna þess að þá kynnu hjólamenn að þurfa að leggja lykkju á leið sína til að hjóla ekki á „óvarða vegfarendur“ – er þar átt við fólkið inni í skýlinu? Loks klykkir formaður skipulags- og samgönguráðs út með því að í raun sé þetta gert til að draga úr umferðarhraða og minnka hávaða frá umferðinni.

Væntanlega lætur skipulags- og samgönguráð hávaðamæla umferðina á Geirsgötu fyrir og eftir að strætisvagnar taka að stöðva umferðina þar svo að formaður ráðsins hafi staðreyndir við að styðjast í fullyrðingum sínum.

Hér var á dögunum bent á harðorð mótmæli tveggja greinarhöfunda í Morgunblaðinu sem telja meirihluta borgarstjórnar sýna yfirgang og lítilsvirðingu gagnvart sér og öðrum með framgöngu sinni í miðborginni. Á mbl.is svarar píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir þessu fólki á þennan hátt:

„Það er erfitt að andmæla orðum fólks þegar það upplifir að ekki sé hlustað á sig. Og það er leitt að heyra. En við tökum tillit til allra sjónarmiða í þessu ferli, sem er nokkuð langt. Það er þannig að enginn gerir svo öllum líki en við teljum okkur vera að starfa fyrir fólkið í borginni.“

Lítilsvirðingin og hrokinn leynir sér ekki.