10.7.2023 10:42

Fölvskalaus leiðtogadýrkun

Greinilegt er að fleiri hrífast af töfrum Kristrúnar en Össur. Kristinn T. Haraldsson, Kiddi rót, nú rútubílstjóri í Noregi, ritar einlæga lofgrein um Kristrúnu.

Í umræðum um stjórnmál samtímans vekja fræðimenn og stjórnmálaskýrendur æ oftar máls á að í lýðræðisríkjum og í innbyrðis samstarfi þeirra megi gæta vaxandi árekstra á milli stjórnmálamanna eða flokka sem tileinka sér aðferðir valdboðsstjórnmála á kostnað lýðræðislegra stjórnarhátta. Einkennin megi meðal annars greina í þrá margra eftir „sterka manninum“, öflugum leiðtoga sem leiði þjóð eða flokk út úr eyðimörkinni.

Yfirleitt eru valdboðshættir kenndir við hægri og hægriflokka að minnsta kosti í Evrópu. Sama á ekki við utan álfunnar, nægir þar að nefna sósíalísku einræðisöflin og herra þeirra sem ráða í Venesúela, Níkaragva og á Kúbu.

1397201Kristrún Frostadóttir (mynd: mbl.is).

Á næsta ári, 2024, verða 30 ár liðin frá því að vinstri flokkarnir í Reykjavík sameinuðust um eitt borgarstjóraefni og einn lista, R-listann, til að sigra Sjálfstæðisflokkinn. Það markmið náðist undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þá í Kvennalistanum og síðan Samfylkingunni. Hún valdi Dag B. Eggertsson, þá utan flokka, sem pólitískan arftaka sinn.

Í afmælisviðtali í Morgunblaðinu um liðna helgi fann Össur Skarphéðinsson, sem Ingibjörg Sólrún ýtti úr formannsstóli Samfylkingarinnar, að því að hún hefði leitt flokkinn í villu með frægri Borgarnesræðu snemma árs 2003, blairisma og vinarhótum við Baugsveldið og Kaupþing, vegna hennar sé talað um Samfylkinguna sem „hrunflokk“.

Össur sér hins vegar nýjan sterkan leiðtoga: Kristrúnu Frostadóttur, krýndan formann Samfylkingarinnar frá því í fyrra. Hún sé „óslípaður demantur“ og annað eins „talent“ komi kannski einu sinni eða tvisvar á öld upp innan stjórnmálaflokks.

Greinilegt er að fleiri hrífast af töfrum Kristrúnar en Össur. Kristinn T. Haraldsson, Kiddi rót, nú rútubílstjóri í Noregi, ritar einlæga lofgrein um Kristrúnu í Morgunblaðið í dag (10. júlí). Hann segist hafa lifað og hrærst í pólitík í 40 ár. Á sínum tíma var Kiddi rót liðtækur og virkur stuðningsmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþýðuflokksins. Grein hans nú ber fyrirsögnina: Stjarna er fædd í íslenskri pólitík.

Þessi stjarna er að sjálfsögðu Kristrún Frostadóttir. Greinarhöfundur líkir henni við frönsku frelsishetjuna og dýrlinginn Mærina frá Orléans, Jóhönnu af Örk (1412-1431). Kristrún „fangaði athygli mína fyrst í þætti hjá Gísla Marteini er hún lék á harmonikku,“ skrifar Kiddi rót frá Noregi og einnig:

„Hún er pollróleg, jarðbundin og yfirveguð, lætur ekki skoðanakannanir trufla sig og heldur sínu striki þó menn reyni að finna á henni ýmsa galla sem þeir geta samt ekki komið auga á og reyna þá að búa til ímyndaðar hugmyndir og getgátur um hana og fyrri störf....

Nú voru allir pennar við vefmiðla, blöð og tímarit sendir út af örkinni til að fella hana eins og gert var við mærina frá Orléans. Hana skal brenna með öllum ráðum. Ef við finnum ekkert á hana þá bara búum við eitthvað til því allir hafa eitthvað að fela.“

Greinin birtist 10. júlí 2023. Ekki segir hvenær hún er skrifuð.