Flugvöllur á milli vina
Af minna tilefni en hér er rakið hefur verið leitað til eftirlitsaðila og jafnvel dómstóla til að fá úrskurð um lögmæti opinbers gjörnings .
Leifur Magnússon verkfræðingur birtir athyglisverða grein í Morgunblaðinu í dag (5. nóv.) undir fyrirsögninni Hvar er lagaheimildin? Hann bendir á að samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar megi ríkið ekki „selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild“. Þessarar heimildar sé jafnan aflað í 6. gr. fjárlaga.
Þessar alkunnu og lögbundnu staðreyndir rifjar Leifur upp þegar hann veltir fyrir sér gjörningi tveggja forystumanna Samfylkingarinnar frá 1. mars 2013. Þar er um að ræða Dag B. Eggertsson sem skipar nú annað sætið á lista flokksins í Reykjavík norður og Katrínu Júlíusdóttur sem er nú kosningastjóri Samfylkingarinnar.
Dagur B. var formaður borgarráðs 1. mars 2013 og Katrín fjárlaga- og efnahagsráðherra. Þennan dag fyrir rúmum 11 árum rituðu þau undir skjal með fyrirsögninni „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð“.
Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir rituðu 1. mars 2013 undir samkomulag um sölu á flugvallarlandi. Var það gert án lögheimildar?
Dagur B. var þá formaður borgarráðs í tíð Jóns Gnarrs borgarstjóra og ritaði líklega í umboði Jóns undir kaup Reykjavíkurborgar á 11,8 hektara landspildu á svæði Reykjavíkurflugvallar. Á dögunum gaf Svandís Svavarsdóttir sem ráðherra fyrirmæli um að nú skyldi girðingu umhverfis flugvöllinn breytt svo að borgin gæti byggt „þétta og háreista íbúðabyggð þrátt fyrir víðtæk andmæli íbúa Skerjafjarðar“ eins og Leifur orðar það um leið og hann bendir á að Isavia, flugrekendur og öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna telja að slík stórfelld uppbygging nálægt flugbrautunum „muni skerða flugöryggi vallarins“.
Katrín Júlíusdóttir staðfesti sem fjármálaráðherra sölu flugvallarlandsins með undirskrift. Leifur segist árangurslaust, meðal annars með fyrirspurn á Facebook, hafa leitað að heimild í lögum fyrir þessari skuldbindingu Katrínar um sölu á ríkiseign. Leit sín hafi ekki borið árangur en í skjalinu sjálfu, sem Leifur kallar „furðuskjal“, sé hvergi vísað til lagaheimildar. Grein sinni lýkur Leifur Magnússon á þessum orðum:
„Þess vegna leita ég hér enn á ný svara. Hvar er að finna lagaheimildina fyrir þessari meintu sölu á landi ríkisins í Skerjafirði?“
Af minna tilefni en hér er rakið hefur verið leitað til eftirlitsaðila og jafnvel dómstóla til að fá úrskurð um lögmæti opinbers gjörnings . Er skrýtið að það hafi ekki verið gert vegna samkomulags samfylkingarfólksins.
Þess má minnast að í borgarstjórnarkosningum 2014 vildu framsóknarmenn hressa upp á ímynd sína meðal kjósenda með því að hnýta orðinu flugvallarvinir aftan við nafnið á framboðslista sínum. Má meðal annars rekja það til mótmæla gegn þessu samkomulagi. Nú ætlar Einar Þorsteinsson, fyrsti framsóknarmaðurinn á borgarstjórastóli, að hrinda því í framkvæmd.
Þau Katrín kosningastjóri og Dagur B. þingframbjóðandi Samfylkingarinnar geta auðveldlega tekið af allan vafa í þessu máli með því að benda á umboð sitt lögum samkvæmt til þess að rita undir þennan gjörning. Grein Leifs Magnússonar gefur þeim kjörið tilefni til þess. Kjósendur eiga raunar rétt á að vita svar þeirra við grein Leifs.