18.12.2017 10:00

Flugvirkjar vega að Icelandair

Áður fyrr gátu flugvirkjar lamað allar samgöngur í lofti til og frá landinu með verkfalli. Sá tími er liðinn.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var skorinorður í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins (FRÚ) í hádeginu í gær (17. desember) vegna verkfalls flugvirkja sem ógnar framtíðarrekstri Icelandair. Hann sagði meðalheildarlaun flugvirkja hjá Icelandair nema 826.000 krónum. Þeir vildu 20 prósenta hækkun. Hann sagði:

„Verkfall flugvirkja er því miður staðreynd. Og það þýðir að almannahagsmunum er fórnað í þágu sérhagsmuna lítils og vel skipulagðs hóps sem ítrekar misbeitir verkfallsvopninu. Við megum ekki gleyma því að þeir hafa boðað verkfall á um það bil 18 mánaða fresti á undanförnum árum."

Hann sagði að aðilar vinnumarkaðarins hefðu dregið línu í sandinn og frá þeirri línu yrði ekki hvikað. Annars myndu afleiðingarnar hellast yfir allan vinnumarkaðinn og raska efnahagslegum stöðugleika.

Furðulegt er ef menn halda að þessi kjaradeila flugvirkja verði leyst með því að beina umræðum að ákvörðun kjararáðs sem olli deilum nú eins og jafnan áður. Þar er uppi krafa um að þingmenn ógildi ákvörðun óhlutdrægs aðila um laun sín um leið og fráleitt er talið að þingmenn setji lög til að hindra að flugvirkjar eyðileggi eigin starfsvettvang og stórspilli samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja við þær aðstæður í N-Atlantshafsflugi að áhugi á millilendingum minnkar vegna nýrra flugvéla.

Hneykslun á lögmætri ákvörðun kjararáðs leysir ekki hnútinn í kjaradeilu flugvirkja. Halldór Benjamín Þorbergsson sagði réttilega:

„Samtök atvinnulífsins hafa fordæmt úrskurði kjararáðs, en við erum ekki aðilar að þeim. Það hjálpar ekki í þessu samhengi, ég get tekið undir það [með fréttamanni FRÚ], en breytir því ekki að við erum með almenna launastefnu í landinu, og SA geta ekki hvikað frá henni, hvað þá gagnvart litlum stéttum sem reyna að taka landið í gíslingu með því að loka flugleiðum og lífæð landsins."

Í lok fréttarinnar sagði:

„Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, hafnaði því að tjá sig um ummæli Halldórs Benjamíns, og sagði þau ekki svaraverð.“

Forráðamenn flugvirkja láta eins og þetta sé allt vandamál annarra en þeirra. Þeir vilja ekki ræða stóru myndina. Þeir láta eins og það sé allra annarra að leysa vandann sem blasir við tug þúsunda manna vegna aðgerða þeirra. Gangvirki atvinnulífsins er ekki flóknara en tækjabúnaður flugvélar, bili eitthvað í því verða allir að leggja sig fram um að koma því af stað að nýju nema þeir stjórnist af skemmdarhug.

Áður fyrr gátu flugvirkjar lamað allar samgöngur í lofti til og frá landinu með verkfalli. Sá tími er liðinn. Þeir vega aðeins að flugfélaginu þar sem þeir starfa. Innan Icelandair hljóta menn að velta fyrir sér hvort unnt sé að tryggja stöðugleika í rekstri á annan hátt en að treysta á þjónustu flugvirkja hér á landi. Sé sá kostur ekki skoðaður í alvöru er ekki allt gert til að treysta framtíðarstöðu félagsins í harðnandi samkeppni.