4.5.2023 9:59

Flugvallarkreppa framsóknar

Framsóknarmenn sneiða nú af flugöryggi í Vatnsmýrinni af því að þeir eygja borgarstjórastólinn fyrir ný-framsóknarmanninn Einar Þorsteinsson.

Núverandi og fyrrverandi framsóknarmenn greinir á um hvað felst í samþykki Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, við framkvæmdum í svonefnda Nýja Skerjafirði sem skerða flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli og auka á óvssu um notagildi hans þótt hann standi áfram í Vatnsmýrinni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður Miðflokksins, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, rifjaði á alþingi miðvikudaginn 3. maí upp orð Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um að „Reykjavíkurborg fengi ekki flugvallarland í Skerjafirði til íbúðabygginga meðan annar jafn góður eða betri kostur undir flugvöll væri ekki upp byggður“.

Sigmundur Davíð minnti á að14 oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum hefðu bent á að Sigurður Ingi færi nú gegn þessu loforði sínu. Innviðaráðherra hefði hins vegar sakað sjálfstæðismennina „um óheilindi með því að benda á að hann væri ekki að standa við það sem hann hefði lofað“.

Þessi ásökun formanns Framsóknarflokksins er ekki á rökum reist. Niðurstöður starfshóps sem hann skilaði eru á þann veg að ný byggð við brautarenda í Skerjafirði dregur úr flugöryggi. Flokksformaðurinn skýtur sér á bak við óljósar mótvægisaðgerðir til að draga úr líkum á hættuástandi.

Rnyr-kjVinningstilla um svonefndan Nýjan Skerjafjörð (mynd: Efla.is).

Þingmaður Framsóknarflokksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, sagði á alþingi 3. maí að skjal sem formaður hennar og Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, rituðu undir 2019 væri grundvallarplagg: „samkomulag um að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldist óbreytt að lágmarki næstu 20–30 árin eða þar til annar jafn góður eða betri kostur finnst“.

Hún leitaði síðan eins og ráðherrann skjóls af óljósum og óreyndum mótvægisaðgerðum og taldi að þær gæti Reykjavíkurborg „notað til að standa við samninginn frá 2019 og byggja nýjan Skerjafjörð án þess að skerða rekstraröryggi flugvallarins“.

Að nota slík hálmstrá til að réttlæta lokaorð þingmannsins: „Völlurinn er ekki að fara og flug í Vatnsmýri skerðist ekki næstu 20-30 árin“ samræmist á engan hátt öryggiskröfum sem gera verður vegna flugvalla. Verið getur að Reykjavíkurflugvöllur verði enn í 20 til 30 ár í Vatnsmýrinni en gagnsemi hans og öryggi skerðist með sérhverri aðför eins og þeirri sem nú er gerð að honum. Framsóknarmenn sneiða nú af flugöryggi af því að þeir eygja borgarstjórastólinn fyrir ný-framsóknarmanninn Einar Þorsteinsson. Ekkert verð er of hátt fyrir stólinn og á það spilar Samfylkingin. Fulltrúar Viðreisnar og Pírata leggja sitt af mörkum til þessa ljóta leiks með framsóknarmenn.

Dagur B. Eggertsson lítur á Einar Þorsteinsson sem Jón Gnarr í öðru veldi. Í borgarstjóratíð leikarans og skemmtikraftsins hélt Dagur B. öllum þráðum í hendi sér sem formaður borgarráðs. Meðal fárra sjálfstæðra ákvarðana Jóns Gnarrs sem Dagur B. studdi var að banna „gráum skipum“, það er herskipum, að koma í Reykjavíkurhöfn. Töldu þeir það markvert framlag til friðar. Því miður skilaði það engum árangri og nú eru meiri ófriðarblikur á lofti en síðan í annarri heimsstyrjöldinni. Öryggismatið í ráðhúsinu í tíð Dags B. Eggertssonar hefur ekki verið á rökum reist.