5.12.2024 11:13

Flokkur fólksins líkist kennitölu

Þegar samþykktir Flokks fólksins eru lesnar mætti ætla að þar væri um lýðræðislegt flokksskipulag að ræða en í reynd líta þeir sem þekkja vel til innan flokksins frekar á hann sem kennitölu en hefðbundinn stjórnmálaflokk.

Sr. Halldór Gunnarsson sem var lengi prestur í Holti undir Eyjafjöllum hefur áratugum saman látið víða að sér kveða og hvarvetna flutt málstað sinn af rökföstum þunga. Þessu muna þeir til dæmis eftir sem sátu með honum á landsfundum Sjálfstæðisflokksins þar sem hann vakti menn til vitundar um mörg þjóðþrifamál með þrumandi ræðum sínum.

Sr. Halldór sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn og gerðist einn af stofnendum Flokks fólksins og í viðtali, sem sagt er frá á ruv.is 3. desember 2024, var hann spurður um hvers eðlis Flokkur fólksins væri. Sr. Halldór svaraði:

„Hún [Inga] ræður yfir þessu öllu. [...] Inga er bara eins og menn þekkja mjög ákveðin. Hún stjórnar flokknum algjörlega ein og hún er með prókúru flokksins og svo eru ættingjar hennar nálægt henni og svo er hún með litla stjórn sem er algjörlega trygg henni. [...] Þetta er ákveðið form á því að halda flokki ákveðið með þeim hætti að það verða allir að vera tryggir formanni.“

Sr. Halldór var stjórnarmaður í Flokki fólksins „og stýrði eina landsfundinum sem hefur verið haldinn í átta ára sögu flokksins. Þessi fundur var haldinn í aðdraganda þingkosninganna árið 2017,“ segir á ruv.is. Draga má í efa að þetta með eina landsfundinn sér alveg hárrétt. Á vefsíðu Flokks fólksins eru birtar samþykktir hans og þar segir að þær hafi verið uppfærðar á aukalandsfundi árið 2019.

Sr. Halldór Gunnarsson sagði sig úr stjórn Fólks flokksins árið 2018.

Screenshot-2024-12-05-at-11.12.25Mbl.is 5. desember 2024.

Þegar samþykktir Flokks fólksins eru lesnar mætti ætla að þar væri um lýðræðislegt flokksskipulag að ræða en í reynd líta þeir sem þekkja vel til innan flokksins frekar á hann sem kennitölu en hefðbundinn stjórnmálaflokk.

Þeir taka undir þau orð sr. Halldórs að öll ráð flokksins séu í höndum Ingu Sælands enda eigi hún hugarfóstrið sem sá dagsins ljós í eldhúsinu hjá henni og þaðan sé öllu stjórnað enn í dag.

Nú fyrir kosningarnar sagði Tómas A. Tómasson (í Tommaborgum) frá því að 20. október hefði hann fengið símtal um að hann yrði ekki aftur á lista flokksins í Reykjavík norður þar sem hann var kjörinn á þing 2021. Þá greindi Inga Sæland frá því 21. október að Jakob Frímann Magnússon sem var þingmaður Flokks fólksins í NA-kjördæmi yrði ekki oddviti flokksins þar að nýju.

Augljóst er að hvorki Tómas né Jakob Frímann gátu sér nokkra björg veitt með því til dæmis að leita ásjár hjá kjördæmisráði eða uppstillingarnefnd. Hvorugt þekkist í Flokki fólksins hvað sem líður flokkssamþykktum.

Forgangsmál í kosningaloforðum Flokks fólksins er að skattleysismörk hækki í 450.000 kr. á mánuði hjá þeim sem hafa lágar tekjur með „fallandi persónuafslætti“.

Morgunblaðið slær á það í dag að kosningaloforð Ingu Sæland kosti 390 milljarða króna.

Stjórnmálaflokkar eru grunneiningar lýðræðislegra stjórnarhátta og virðingu forystumanna fyrir lýðræði má meðal annars mæla með mati á þessum þáttum í baklandi þeirra. Þar skorar Inga Sæland lágt hvað sem líður vinsældum hennar meðal kjósenda eða trúnaði sem hún nýtur við stjórnarmyndun.