21.12.2019 13:07

Flokkssystir Þórhildar Sunnu úrskurðar í Strassborg

Þess er hvergi getið í fréttum hér af málinu að þær eru saman í þingflokki í Strassborg Þórhildur Sunna og Liliane Maury Pasquier. Sitja þar báðar sem sósíalistar.

Hér var á dögunum sagt frá bréfi sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi til Liliane Maury Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins, þar sem hann vakti athygli hennar á að píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, fyrir utan að vera formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingi, hefði fyrst íslenskra þingmanna verið úrskurðuð brotleg við siðareglur alþingismanna.

Bréfið er dagsett 4. desember 2019, sent 9. desember og sagt frá því í Morgunblaðinu 18. desember en svarbréf forseta Evrópuráðsþingsins er dagsett 20. desember.

Í bréfi Ásmundar er minnt á að Evrópuráðsþingið hafi „ítrekað lagt mikla áherslu á það við aðildarríki sín að þau setji siðareglur fyrir alþingismenn sem feli jafnframt í sér viðurlög“. Í samræmi við það ætti þingið nú einnig að líta til þess þegar í Íslandsdeild þingsins sitji alþingismaður sem gerst hafi brotlegur við siðareglur.

28129506917_a82473f0b5_bLiliane Maury Pasquier á forsetastóli í Evrópuráðsþinginu.

Þórhildur Sunna brást strax við með þessum orðum, sjá frettabladid.is 18. desember:

„Ég er alveg róleg, en mér finnst þetta vera áhugaverð tímasetning. Það er náttúrulega orðið mjög langt síðan að þessi úrskurður féll. Hann kýs að vekja athygli á þessu bréfi núna daginn eftir þinglok, hann hefur væntanlega ekki viljað ræða þetta í þinginu. En ekki bara það að þá kemur þetta mjög stuttu eftir að ég fer fram á frumkvæðis athugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar og mér finnst það áhugaverð tímasetning. Ég velti fyrir mér hvort að fleiri Sjálfstæðismenn standi að baki honum, Sjálfstæðisflokkurinn kannski, eða ekki. Mér þætti áhugavert að vita það hvort að Sjálfstæðisflokkurinn styður svona bréfaskriftir.“

Yfirlætið leynir sér ekki í viðbrögðunum. Þarna kýs hún að tína til ávirðingar á aðra og gerir bréfið að flokkspólitísku máli. Þá fór Björn Leví Gunnarsson, samflokksmaður Þórhildar Sunnu, af stað og dembdi svívirðingum yfir Ásmund.

Eftir að Liliane Maury Pasquier svaraði Ásmundi breyttist tónninn í viðbrögðum Þórhildar Sunnu. Þá segist hún hafa verið ófeimin við að upplýsa kollega sína á Evrópuráðsþinginu um siðaregluúrskurðinn allt frá því að hann féll. „Enda um brot á mínu tjáningarfrelsi að ræða.“

Pasquier segir að „alls ekkert“ bendi til þess að Þórhildur Sunna hafi gerst sek um „spillingu“ eða brotið gegn „sérstökum reglum Evrópuráðsþingsins“. Af hálfu þingsins í Strassborg verði ekki frekar aðhafst í málinu. Þingforsetinn tekur þó ekki undir fullyrðingu Þórhildar Sunnu um að tjáningarfrelsi hennar hafi verið skert. Auk þess áréttar þingforsetinn gildi þess að þjóðþing setji sér siðareglur og framfylgi þeim.

Þess er hvergi getið í fréttum hér af málinu að þær eru saman í þingflokki í Strassborg Þórhildur Sunna og Liliane Maury Pasquier. Sitja þar báðar sem sósíalistar. Liliane Maury Pasquier var formaður þingflokksins áður en hún varð þingforseti.

Á alþingi hefði Þórhildur Sunna ekki látið sér lynda að þingforseti teldi sig hæfan til að svara bréfi í nafni þingsins vegna ávirðingar á samflokksmann. Hún hefði talið það rýra trúverðugleika þingforsetans og rýra álit alþingis út á við.