6.3.2018 10:52

Flokkspólitísk frekja að baki vantrausti

Að baki tillögunni um vantraust á dómsmálaráherra eru engin efnisleg rök heldur flokkspólitísk frekja sem birtist í hvert sinn sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kemur fram í sjónvarpi.

 Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Myndin er af mbl.is

Hallgrímur Indriðason fréttamaður ríkisútvarpsins ræddi við Edward Huijbens, varaformann Vinstri grænna (VG) sunnudaginn 28. janúar eftir flokksráðsfund VG en fyrir hann var talið að þar yrði vegið að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Það gerðist ekki en í útvarpsfréttinni um samtal Hallgríms og Huijbens sagði:

 „Aðspurður í hvaða stöðu málið er [staða dómsmálaráðherr] ef skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns Alþingis kemur illa út fyrir ráðherrann segir Edward. „Ég vona þá að hún sjái að sér hreinlega, taki þá af skarið og sýni það pólitíska þor að segja af sér. Það er það sem ég vonast til. Ég vonast líka til að Sjálfstæðisflokkurinn sem hún situr fyrir bendi á að hún þurfi að gera eitthvað í málinu. En það er ekki vilji Vinstri grænna að gera skýlausa kröfu um afsögn hennar þvert á vilja Sjálfstæðismanna og þar með sprengja ríkisstjórnina. Það er ekki okkar vilji.“

Þarna er það fréttamaðurinn sem notar orðin „kemur illa út“ um hugsanlega niðurstöðu í þingnefnd eða hjá umboðsmanni alþingis. Varaformaður VG notar ekki þessi orð. Fréttastofan áskildi sér greinilega rétt til að túlka hvort niðurstöður „kæmu illa út“ eða ekki.

Nú hefur umboðsmaður alþingis lokið athugun sinni og kemur hún ekki illa út fyrir dómsmálaráðherra. Þingnefndin undir formennsku Helgu Völu Helgadóttur (Sf) hefur hins vegar ekki lokið meðferð málsins, engu að síður hafa formaðurinn og meðnefndarmaður hennar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) boðað vantrausttillögu á dómsmálaráðherra. Þær stöllur fengu engan úr Flokki fólksins til að flytja tillöguna með sér en gera sér vonir um stuðning úr röðum stjórnarliða.

Edward Huijbens sagði réttilega 28. janúar að VG gæti sprengt stjórn undir forystu formanns síns, þá fyrstu í sögunni, með því að greiða atkvæði með vantrausti á dómsmálaráðherra. Helga Vala og Þórhildur Sunna reikna ef til vill með því að VG-þingmennirnir tveir, Rósa Björk og Andrés Ingi, leggist á sveif með sér gegn ríkisstjórninni í samræmi við afstöðu þeirra við myndun hennar.

Aðild Helgu Völu Helgadóttur að þessari tillögu sýnir enn hve fráleitt er að treysta henni fyrir formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis. Hún veldur ekki embættinu og rýrir gildi þess með flokkspólitísku upphlaupi.

Rökin að dómsmálaráðherra verði að víkja vegna þess að dómskerfið sé í uppnámi eftir skipun dómaranna í landsrétt eru hefðbundin spuni fólks með lélegan málstað. Dómararnir sitja áfram hvað sem ráðherranum líður.

Það er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður sem reynir að skapa óvissu með því að krefjast þess að dómarar víki vegna vanhæfis. Þeir sem fylgst hafa með ferli Vilhjálms H. undrast ekki að hann hafi uppi fráleitar kröfur og einhverjir líti á þær sem réttmætar þótt á sandi séu reistar. Landsréttur hefur þegar hafnað sjónarmiði Vilhjálms H.

Að það skapi óbærilega réttaróvissu að lögmaður í sakamáli krefjist þess að dómari víki vegna vanhæfis er út í hött. Til að árétta þungan í þessum sérkennilega málflutningi er sagt að málið endi fyrir mannréttindadómstólnum í Strassborg. Er þetta gert til að hræða og lítillækka hæstaréttardómara? Eða búast lögmaðurinn og fylgismenn hans við að tapa málinu fyrir hæstarétti?

Að baki tillögunni um vantraust á dómsmálaráherra eru engin efnisleg rök heldur flokkspólitísk frekja sem birtist í hvert sinn sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kemur fram í sjónvarpi. Að Samfylkingin skulu fylkja sér að baki Pírötum í þessu máli er í samræmi við vandræði mið-vinstriflokka í Evrópu. Þeir eru auðveld bráð fyrir flokka popúlista.