25.6.2018 10:04

Flokksformaður langt frá markinu

Hafi Inga Sæland ætlað að skaða einhvern með orðum sínum hitta þau hana sjálfa fyrst og síðast.

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, ritaði pistil á Facebook þjóðhátíðardaginn 17. júní og sagði meðal annars:

„Það stekkur enginn lengra en hann hugsar. Fullveldið fyrir 100 árum og síðan sjálfstæðið er að mínu mati lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð á alþjóðavettvangi í íþróttum og auðvitað svo mörgu öðru. Hugarfarið er undirstaða svo margs. Að treysta á sjálfan sig. Að vera stoltur af sér og sínum og gera sitt besta fyrir land og þjóð. Að skipta máli. Nú er það svo að það hefur örlað á því í umræðunni á seinni árum að það sé ekki sjálfsagt að vera stoltur af landi og þjóð. Það þyki jafnvel bera merki um annarlegar kenndir í garð annarra þjóða að vera ánægður með sitt. [...]Þetta viðhorf kom upp í hugann, þegar ég horfði á mynd í norska sjónvarpinu á dögunum, sem var gerð um íslenska landsliðið í fótbolta. Það var rætt við ýmsa sem ég tilgreini ekki frekar og reynt að setja eitthvað samhengi milli aðstæðna á Íslandi og árangurs landsliðsins. Myndin var gerð af íslenskum aðilum. Tilfinningin, sem sat eftir að þættinum loknum, var að það virtist sameiginlegt með flestum þeim sem rætt var við að þau virtust eiga óskaplega erfitt með að segja eitthvað jákvætt um sitt heimaland. Það virtist frekar reynt að tína til það sem lakara var. Það var t.d. fussað þegar rætt var um hvort Ísland væri velferðarríki.“

Oddvitar-xfMyndin er af helstu frambjóðendum Flokks fólksins í kosningunum 2017.

Í dag (25. júní) skrifar Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins pistil í Morgunblaðið og segir:

„Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig mögulegt er að kjósa yfir sig stjórnvöld sem kúga og pína fólkið sitt.“

Þeir sem ekki hafa séð myndina sem Gunnlaugur sveitarstjóri nefndi í pistli sínum geta látið sér til hugar koma að þar hafi verið rætt við Ingu Sæland eða skoðanabræður hennar. Léti flokksformaðurinn orð um kúgun og pyntingar falla í sjónvarpsþætti um Ísland sem sýndur yrði í löndum þar sem fólk hefur í raun kynnst slíkri framgöngu stjórnvalda gæfi hún því alranga mynd af íslenskum stjórnarháttum. Inga skýtur langt yfir markið með orðum sínum. Hafi hún ætlað að skaða einhvern með þeim hitta þau hana sjálfa fyrst og síðast. Það er undarlegt að telja að vegna setu á alþingi beri að tala niður eigin þjóð og hallmæla stjórnvöldum með innihaldslausum stóryrðum. Haldi Inga Sæland að hún geri fátæku fólki greiða með þessu er það misskilningur.