22.6.2018 13:42

Flissandi meirihluti borgarstjórnar

Það kemur kunnugum ekki á óvart að nýkjörnum borgarfulltrúum finnist nóg um framkomu meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur.

Það kemur kunnugum ekki á óvart að nýkjörnum borgarfulltrúum finnist nóg um framkomu meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur og þeim hafi brugðið á fyrsta borgarstjórnarfundi sínum þriðjudaginn 19. júní vegna þessa að veist var að þeim af virðingarleysi og flissað vegna orða þeirra.

Framkoma af þessu tagi hefur lengi sett svip sinn á fulltrúa rótgrónu flokkanna sem mynda meirihlutann að baki Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Þetta er yfirlæti sem vakti hugmyndina um latte-fólk í 101 Reykjavík við stjórn borgarinnar. Með Jóni Gnarr kom svo virðingarleysið. Hann bar ekki virðingu fyrir kjósendum heldur talaði til þeirra út og suður í kosningabaráttunni. Borgarstjóraembættið setti niður við setu hans í því. Hann sparaði ekki stóru orðin ef svo bar undir gagnvart andstæðingum sínum. Eftir fjögur ár sem borgarstjóri hannaði hann hugtakið „freki kallinn“ og lýsti það stjórnarháttum hans vel.

1054499Mbl.is birti þessa mynd af fyrsta fundi nýkjörinnar boegarsjórnar.

Eftir að meirihluti vinstri manna varð til í Reykjavík mótmæltu vinstri menn í meirihluta á Akranesi að stefnuskráin í Reykjavík hefði ekkert að geyma um Sundabraut.

Þátttaskil urðu í umræðum um Sundabraut 6. september 2005, eftir að þáv. ríkisstjórn hafði ákveðið að verja 8 milljörðum króna af svonefndu símafé til að leggja Sundabraut. Þá var bókað í borgarstjórn að tillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þáv. borgarstjóra R-listans:

 „Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á samgöngubætur í höfuðborginni við ráðstöfun söluandvirðis Landsíma Íslands. Sérstaklega er því fagnað að átta milljarðar króna skulu lagðir til fyrsta áfanga Sundabrautar á árunum 2007-2010 og að ekki séu uppi áform um gjaldtöku af umferð um mannvirkið. Að því gefnu að umhverfisráðherra telji báðar leiðir yfir Kleppsvík færar og viðunandi lausn fáist á tengingu Sundabrautar við Sæbraut m.t.t. hagsmuna miðborgarinnar og nærlægrar byggðar, mun verða ráðist í breytingu á gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur með það fyrir augum að fara s.k. innri leið.“

Þegar við sjálfstæðismenn sögðum fyrir borgarstjórnsrkosningarnar 2002 að allt tal um skjótan flutning flugvallarins væri í raun blekkingarhjal, málið yrði ekki leyst nema sest yrði niður til viðræðna við ríkisvaldið, fylltist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri R-listans, hneykslan – lausn sjálfstæðismanna er að „setjast niður“ sagði hún með þóttafullu flissi – flugvöllinn ætti að flytja til Keflavíkur og það yrði unnið að því undir sinni stjórn á næsta kjörtímabili, ríkinu kæmi þetta ekkert við, það þyrfti ekki að setjast niður með fulltrúum þess.

Það er ekki undarlegt að fólk með feril af þessu tagi í borgarstjórn, Dagur B. var fyrst kjörinn 2002, skuli kjósa að flissa og tala niður til þeirra sem gagnrýna störf þess og stefnu.