2.8.2018 19:51

Flauta og harpa í München

Við hlustuðum á samleik flautu og hörpu, Janine Schöllhorn lék á flautu en Marlis Neumann á hörpu.

Flugum til München með Icelandair. Allt var á áætlun og vel það. Sama má segja um hitann. Það lék þó gola um götur borgarinnar sem breytti miklu. Ætli ég verði þó ekki að fá mér svitaband að hætti tennisleikara svo að ekki leki of mikið á lyklaborð tölvunnar þegar ég sest við það!

Img_6637Janine  Schöllhorn og Marlis Neumann í Hofkapaelle der Residenz.

Um kvöldmatarleytið fórum við á tónleika í Hofkapelle der Residenz. Það er í kapellunni í höllinni sem hýsti hertoga, kjörfursta og konunga Bæjaralands á árunum 1508 til 1918 en höllin er kölluð Residenz. Hún setur sterkan svip á gamla hluta miðborgarinnar.

Við hlustuðum á samleik flautu og hörpu, Janine Schöllhorn lék á flautu en Marlis Neumann á hörpu. Tónleikarnir eru eftirminnilegir bæði vegna flutningsins og staðarins.

Kapellan er aðeins ein af mörgum byggingum sem mynda Residenz. Þarna eru salir með listaverkum og til listsýninga af öllum toga.  

Stór hluti bygginganna var eyðilagður í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðist var í endurreisn þeirra stig af stigi frá 1945.