Flaustur verkstjórnar Kristrúnar
Síðan hefur komið í ljós að flaustur ræður meira en forsjá við gerð lykilfrumvarpa sem eru smíðuð af ráðherrum ríkisstjórnarinnar en ekki endurflutt eins og þorri frumvarpanna á þingmálaskránni.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur keppist við að lýsa sjálfri sér sem „verkstjórn“. Hún vill með orðinu koma þeim boðum til þjóðarinnar að stjórnin láti verkin tala.
Til að gefa sjálfum sér gæðastimpil efndu forystukonur stjórnarflokkanna til blaðamannafundar áður en forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í byrjun febrúar til að hampa þingmálaskrá stjórnarflokkanna á vorþinginu.
Þessi mynd birtist á Facebook-síðu Kristrúnar Frostadóttur.
Síðan hefur komið í ljós að flaustur ræður meira en forsjá við gerð lykilfrumvarpa sem eru smíðuð af ráðherrum ríkisstjórnarinnar en ekki endurflutt eins og þorri frumvarpanna á þingmálaskránni.
Óðagot hefur til dæmis einkennt allan málatilbúnað og tilfæringar í kringum tvöföldun auðlindaskattsins í sjávarútvegi. Tveir ráðherrar Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra, efndu í skyndi til blaðamannafundar til að kynna frumvarpið sem lá óvenjulega stuttan tíma til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Umsagnir bárust þó frá sveitarfélögum við sjávarsíðuna um land allt og var engin þeirra jákvæð. Hvarvetna óttast forráðamenn sveitarfélaganna neikvæðar afleiðingar frumvarpsins enda er það aðför að byggðafestu á þessum stöðum með afkomubrest þeirra að leiðarljósi.
Á þetta hefur síðan verið lögð áhersla í áhrifamiklum sjónvarpsauglýsingum. Í stað þess að ræða efni málsins væla stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar undan auglýsingunum.
Nú liggur fyrir að við gerð frumvarpsins voru varnaðarorð embættismanna um nauðsyn frekari athugana á áhrifum þess hafðar að engu. Þá benda lögfræðingar á að efast megi um að frumvarpið standist stjórnarskrána vegna aðferðarinnar sem notuð er til að ákveða reiknistofninn.
Miðvikudaginn 16. apríl var álitsgerð fjármálaráðs vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar birt á vef alþingis. Var þá um vika liðin frá því að álitsgerð ráðsins vegna fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar birtist.
Að svona stutt sé á milli álitsgerðanna sýnir enn óðagot „verkstjórnarinnar“. Gagnrýnir fjármálaráðið þessi vinnubrögð. Það rýri trúverðugleika fjármálastefnunnar þar sem hún geti ekki uppfyllt akkerishlutverk sitt. Í framlagðri fjármálastefnu sé fjallað um hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna en slíkt ætti að birtast í fjármálaáætluninni.
Fjármálaráð fagnar metnaðarfullu markmiði um hallalaus fjárlög
árið 2027. Í ljósi sögunnar verði þó að teljast líklegt að áföll muni ríða yfir. Því mætti hafa meira borð fyrir báru svo að markmið um hallalaus fjárlög árið 2027 teljist trúverðugt.
Um álagningu og hækkun veiðigjaldsins segir að miða ætti að því að hámarka þjóðhagslegan ábata af nýtingu auðlindarinnar. Útskýra mætti betur í fjárlagaáætluninni hvort og hvernig áformaðar breytingar muni gera það.
Allt ber þetta að sama brunni: Verkstjórnina skortir traust þeirra sem rýna störf hennar. Að trúverðugleika skorti í þeim málum sem hér eru nefnd er aðeins toppurinn á ísjakanum.