19.5.2018 11:07

Flatneskjuleg kosningabarátta

Almennt er lítill áhugi í fjölmiðlum á kosningunum, eins og sést til dæmis á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu nú um helgina.

Nú er rétt vika til sveitarstjórnakosninga. Því er spáð að kjörsókn verði ekki mikil. Áhugi á kosningunum er mismikill eftir sveitarfélögum.

Almennt er lítill áhugi í fjölmiðlum á kosningunum, eins og sést til dæmis á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu nú um helgina. Blöðin eru almennt flatneskjuleg í pólitíkinni og tími átaka á síðum þeirra er liðinn – það dregur í senn úr áhuga á blöðunum og pólitíkinni.

Þetta merki hefur Samband ísl. sveitarfélaga látið gera í því skyni að hvetja til þátttöku í sveitarstjórnarkosningunum.

Í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag (19. maí) kvartar Sirrý Hallgrímsdóttir þó undan skorti á upplýsingum um ákveðin mál í rekstri Reykjavíkur. Hún leggur fram fimm spurningar:

(1) Hver ber ábyrgðina á því að ekki var brugðist við fyrir nokkrum árum  og gerðar úrbætur í samgöngumálum?

(2) Hvers vegna er svifryk svona mikið vandamál í Reykjavík og hvers vegna gengur svona illa að þrífa borgina, slá gras og hirða rusl?

(3) Hvers vegna voru lóðaúthlutanir takmarkaðar og fasteignaverð hækkaði skart?

(4) Hvers vegna er ekki hægt að manna almennilega leikskóla eins og tekst í öðrum nágranna sveitarfélögum?

(5)  Hvers vegna vaxa skuldir Reykjavíkur svona mikið?

Sirrý veltir fyrir sér hvers vegna fjölmiðlamenn spyrja borgarstjórann ekki þessara spurninga. Vissulega er það umhugsunarvert. Vita fjölmiðlamenn að þeir fá engin svör eða vilja þeir hlífa Degi B.? Hann komst upp með að tala eins og fréttaskýrandi en ekki borgarstjóri um mengunarslysið í vetur.

Einar S. Hálfdánarson, varamaður í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar, segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Á minna en áratug hefur Reykjavíkurborg tekið tæpar sextán þúsund milljónir að láni umfram það sem hún hefur greitt. Segi og skrifa sextán þúsund milljónir! Þessar lántökur eru í mesta góðæri Íslandssögunnar þegar borgin ætti að leggja til hliðar. Í staðinn er skatttekjum framtíðarinnar sóað í gæluverkefni. Barnabörnin borga. Það er ekki nema von að borgarstjóri brosi breitt í auglýsingunum. Eða er Dagur kannski að hlæja að okkur?“

Dagur B. er enn með sömu loforðin á vörunum árið 2018 og árið 2002 – endurvinnsla á kosningaloforðum er aðalsmerki Dags B. – skuldasöfnunin er einkenni stjórnleysis. Það vekur ekki áhuga á kosningum að alltaf sé talað um sömu málin og látið reka á reiðanum.