15.12.2020 9:48

Fjörbrot Trumps

Því eru engin takmörk sett hvert blind sjálfsdýrkun og valdafíkn getur leitt menn.

Nú er svo komið fyrir Donald Trump að í dag (15. desember) hefur meira að segja Vladimir Pútin Rússlandsforseti óskað Joe Biden til hamingju með að verða næsti forseti Bandaríkjanna. Er þá fokið í það skjól Trumps að ekki hafi allir ráðamenn heims viðurkennt úrslit kosninganna 3. nóvember. Sjálfur er hann sér til skammar með tilraunum sínum til að grafa undan trú manna á lýðræðislega stjórnarhætti Bandaríkjanna í von um að geta haldið völdum þrátt fyrir dóm kjósenda.

Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hverfur úr embætti í næstu viku. Hann tók ekki undir ásakanir Donalds Trumps um kosningasvik. Ef Trump gæti mundi hann reka alla hæstaréttardómara Bandaríkjanna fyrir að hafna öllum tilraunum manna hans til að fá kosningarnar ógiltar. Dómararnir hafa ýtt kröfum um það frá sér á niðurlægjandi hátt fyrir Trump.

Ástæðan fyrir því að Pútin tók við sér er að mánudaginn 14. desember staðfesti meirihluti kjörmanna að Biden yrði næsti Bandaríkjaforseti. Venjulega dregur sá formlegi gjörningur litla athygli að sér en vegna gjörningaveðursins sem Trump-liðið magnaði komu kjörmenn saman með leynd í ríkjunum 50 svo að ekki yrði gerður aðsúgur að þeim eða ráðist á fundarstaði þeirra. Þetta er ótrúlegt en þó satt og ekki annað en staðfesting á hve tryllt og ofsafengin framganga Trumps er og á skjön við allt sem sæmir lýðræðislegum háttum.

55942386_303Joe Biden hvatti til samstöðu í stað sundrungar þegar hann þakkaði stuðning kjörmannanna.

Joe Biden var einnig óvenjulega harðorður þegar hann ávarpaði þjóðina að lokinni afgreiðslu kjörmannanna. Hann sagði Trump og bandamenn hans „neita að virða vilja fólksins, neita að virða réttarríkið og neita að hafa stjórnarskrá okkar í heiðri“.

Biden bar lof á kjósendur fyrir met-kjörsókn 3. nóvember þrátt fyrir COVID-19-farsóttina og „gífurlegan pólitískan þrýsting, fúkyrði og jafnvel hótanir um líkamlegt ofbeldi“ til að hindra framgang kosninganna.

„Logi lýðræðisins var tendraður með þjóð okkar fyrir löngu. Og nú vitum við að ekkert, ekki einu sinni farsótt eða valdníðsla getur slökkt hann,“ sagði verðandi Bandaríkjaforseti.

Joe Biden verður formlega settur í embætti 20. janúar 2021. Áður en til þess kemur þarf að fullnægja einu formsatriði, það er að Mike Pence, varaforseti Trumps, stjórnar sameiginlegum þingfundi beggja nýkjörinna þingdeilda 6. janúar 2021. Þar eru atkvæði kjörmannanna borin inn, fulltrúar þingmanna í báðum deildum, kallaðir „teljarar“, opna hvern seðil til að sannreyna að hann sé gildur og leggja fyrir varaforsetann til athugunar og samþykktar.

Líklegt er að Trump og félagar hans beiti Pence þrýstingi eins og aðra í úrslitatilraun forsetans fráfarandi til að eyðileggja kosningarnar.

Því eru engin takmörk sett hvert blind sjálfsdýrkun og valdafíkn getur leitt menn. Allt er þetta áminning um gildi lýðræðisins og hvatning til að standa vörð um það andspænis öfgaöflum hvar sem þau birtast.