13.8.2020 9:45

Fjörbrot hefðbundinna fjölmiðla

Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu að stjórn Blaðamannafélag Íslands sé á röngu róli í viðhorfi sínu til fjölmiðlunar og byltingarinnar þar í ályktun sinni.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands sendi frá sér ályktun í gær (12. ágúst) til varnar ríkisútvarpinu og Helga Seljan, starfsmanni þess, í tilefni af myndbandi útgerðarfélagsins Samherja þar sem vinnubrögð ríkisfjölmiðilsins og Helga sérstaklega eru gagnrýnd. Í ályktun félagsins segir:

„Það er ekki nýtt að fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki kveinki sér undan umfjöllun íslenskra fjölmiðla og telji sig ekki þurfa að búa við það aðhald sem frjáls og opin umræða veitir í lýðræðissamfélagi nútímans. Hefðbundnir fjölmiðlar eru hryggjarstykkið í lýðræðislegri umræðu og þegar vegið er að þeim með órökstuddum dylgjum er vegið að tjáningarfrelsinu sjálfu. Stjórn BÍ hvetur alla blaðamenn til að standa þétt saman um grundvallargildi faglegrar fjölmiðlunar og hvika hvergi í þeim efnum.“

Þarna er talað um hefðbundna fjölmiðla og þeim lýst sem hryggjarstykkinu í „lýðræðislegri umræðu og þegar vegið er að þeim með órökstuddum dylgjum er vegið að tjáningarfrelsinu sjálfu“.

Fyrir aldarfjórðungi þegar vefsíðan bjorn.is sá dagsins ljós heyrðust raddir um að ekki væri við hæfi að ráðherra héldi upplýsingum milliliðalaust að almenningi á þennan hátt. Hann ætti að miðla upplýsingum um hefðbundna fjölmiðla. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og gjörbylting hefur orðið í allri fjölmiðlum. Má segja að Donald Trump hafi rekið smiðshöggið á þessa byltingu af hálfu stjórnmálamanna með því að stjórna fjölmiðlun með stuttum yfirlýsingum á Twitter eftir að hann settist í Hvíta húsið í janúar 2017. Samhliða því að taka að sér þessa fréttastjórn sagði Trump mörgum hefðbundnum fjölmiðlum stríð á hendur.

Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu að stjórn Blaðamannafélag Íslands sé á röngu róli í viðhorfi sínu til fjölmiðlunar og byltingarinnar  þar í ályktun sinni.

Mainstream-mediaMorgunblaðið er eini hefðbundni fjölmiðillinn sem hefur haldið haus í fjölmiðlauppnáminu núna. Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. skrifar grein í blaðið í dag (13. ágúst) og spyr:

„Fyrirsvarsmenn RÚV fara mikinn í ásökunum á hendur Samherja fyrir að hafa veist að fréttamanni RÚV. Engin dæmi séu um að fréttamenn hafi þurft að sæta slíkum árásum. Og þá skal spurt: Verður ekki fréttamaður sem sakar borgara í fréttum um refsiverða háttsemi að sæta því að þeir svari fyrir sig? Er hann friðhelgur fyrir því? Ef þeir telja sig hafa stoð fyrir þeirri skoðun að fréttamaðurinn hafi farið með rangt mál, jafnvel vísvitandi, mega þeir þá ekki segja frá því? Hverslags vitleysa er þetta hjá ríkisstofnuninni sem í hlut á og ber skyldur um hlutlægni og málefnaleg vinnubrögð?“

Spurningar Jóns Steinars eru réttmætar. Á hefðbundnum fjölmiðlum á virðingin fyrir sannleikanum undir högg að sækja gagnvart kryddaðri frásögn blaðamannsins. Slagorðið: stöndum við fréttina! dugar ekki lengur. Samherji rýnir í fréttina með eigin gleraugum og lýsir því sem hann sér milliliðalaust. Þetta er nýr veruleiki fjölmiðlunar. Hann ógnar vissulega hefðbundnum fjölmiðlum gefi þeir höggstað á sér vegna óvandaðra vinnubragða.