Fjórar myndir frá Osló
Þegar aflað er efnis í skýrslur með ferðum til erlendra borga gefst lítill tími til annars en sitja fundi og taka myndir á göngu.
Þegar ferðast er til að safna efni í skýrslur með samtölum við opinbera fulltrúa og fræðimenn er dagskráin skipulögð myrkranna á milli og ekki gefst tími til annars en að sitja fundi og melta þann fróðleik sem fram er reiddur.
Þannig hefur það verið hér í Osló í dag. Á milli utanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins er um 20 mínútna gangur. Á þeirri leið tók ég meðfylgjandi myndir.
Ráðhúsið í Osló reis á árunum 1931–50. arkitektarnir Arnstein Arneberg og Magnus Poulsson teiknuðu húsið í miðborg Oslóar. Húsið er úr rauðum tígulsteini með tveimur turnum 63 og 66 m háum.
Bátarnir eru í Pipervika við suðurhlið ráðhússins.
Granítstytta af Franklin D. Roosevelt (1882-1945) Bnadaríkjaforseta stendur skammt frá Akershus-kastala í Osló. Hún var afhjúpuð 7. júní 1950 af Eleanor Roosevelt, ekkju forsetans. Safnað var fé meðal almennings í Noregi til að standa undir kostnaði við gerð styttunnar og sýna þannig þakklæti til Bandaríkjamanna fyrir stuðning þeirra við Norðmenn í og eftir síðari heimsstyrjöldina. Stinius Fredriksen gerði styttuna.
Eftir áralangar umræður ákvað norska stórþingið árið 1999 að reist skyldi nýtt óperuhús í Osló. Efnt var til arkitektasamkeppni og var norska arkitektastofan Snøhetta valin til að vinna verkið en alls bárust 350 tillögur. Framkvæmdir hófust 2003 og lauk árið 2007, fyrr en áætlað var og fyrir 300 milljónum NOK lægri fjárhæð en kostnaðaráætlun nam, alls nam kostnaðurinn 4,4 milljörðum NOK (760 milljónum USD, 96 milljöðrum ISK). Endanlegur kostnaður við Hörpu var 21 milljarður króna.